Týr hefur verið að fylgjast með spennandi norrænni þáttaröð í sjónvarpinu að undanförnu. Þættirnir fjalla um ungt og fallegt fólk á framabraut.

Fyrir tilstilli örlaganna hefur þetta fólk komist í ákaflega vel launuð störf sem kalla þó á háttvísi og drengskap. Enda liggur virðing fyrirtækisins sem það starfar hjá undir.

Söguhetjurnar ungu og fallegu skeyta þó engu um það. Sumar þeirra ferðast um heiminn á hverju ári fyrir margar milljónir þar sem flogið er á fyrsta farrými og gist á glæsihótelum. Ekki hafa þau ferðalög neina þýðingu fyrir eigendur fyrirtækisins.

En það skiptir söguhetjurnar engu máli þar sem slík ferðalög hafa svo styrkjandi áhrif á sjálfsmynd þeirra. Öll framganga þeirra virðist nefnilega snúast um að styrkja hana og sjálfhverfan er nánast algjör.

En stundum komast þær í hann krappann. Í einum þættinum brýtur ein þeirra siðareglur vinnustaðarins þegar hún verður uppvís að því að bera vinnufélaga sinn upplognum sökum um lögbrot. Önnur er handtekin af lögreglu fyrir óspektir á almannafæri á ókristilegum tíma.

Það sem einkennir viðbrögð söguhetjanna í þáttunum er hroki og fullkomin vangeta til þess að líta í eigin barm. Sú sem braut siðareglurnar heldur bara áfram að siðaumvöndunum gagnvart samstarfsfólki sínu en heldur sig að mestu erlendis á kostnað vinnustaðarins. Hetjan sem varð handtekinn af lögreglu bregst við með „missögn“ svo vitnað sé til orðalags vorra tíma.

Allt þetta sýnir áhorfandanum hvað getur gerst fyrir fólk sem kemst í stöðu þar sem það nýtur launa og fríðinda langt umfram verðleika. Það hreinlega missir öll tengsl við veruleika hins venjulega manns.

Þrátt fyrir að þættirnir séu ekki skemmtilegir getur Týr ekki annað en mælt með áhorfi á raunveruleikaþættinum um Pírata sem hefur verið til sýninga í íslenskum fjölmiðlum undanfarin ár.

Týr er einn af föstum ritstjórnardálkum Viðskiptablaðsins.