Skipuleggjendur kvennaverkfallsins hafa hótað því að birta „tossalista“ yfir þá atvinnurekendur sem „hamla þátttöku kvenna og kvára í kvennaverkfallinu“. Til að safna saman fyrirtækjum sem verða fordæmd opinberlega settu skipuleggjendur upp skjal á netinu þar sem hægt er að senda ábendingar um „vinnustaði sem ekki styðja konur og kvár til þátttöku á þriðjudag,“ eins og segir í frétt Vísis um málið.

Ekki var boðað til heils dags verkfallsins fyrr en í þremur vikum fyrir verkfallsdag og því atvinnurekendum ekki heldur gefinn mikill tími til að gera viðeiganda ráðstafanir. Vert er að benda á að sum einkafyrirtæki eru hreinlega ekki í aðstöðu til þess að gefa mögulegum þátttakendum kvennaverkfallsins frí í heilan dag, jafnvel þó þau myndu vilja það og styðji jafnréttisbaráttu heilshugar, og hvað þá með þetta stuttum fyrirvara. Það kemur þó lítið að óvart að starfsmenn ríkis og sveitarfélaga gleymi að taka þennan þátt með inn í jöfnuna, enda í litlum tengslum við hvar verðmætasköpun samfélagsins fer raunverulega fram.

Að sama skapi furðar Týr sig á því að ætlast sé til þess að atvinnurekendur greiði starfsfólki sínu laun þrátt fyrir að það leggi niður störf. Í gegnum tíðina hefur það tíðkast er starfsfólk leggur niður störf að þau fái á meðan greiðslur úr verkfallssjóði verkalýðsfélaga til að hafa ofan í sig og á meðan á verkfalli stendur.

Ef verkalýðsforingjum á borð við Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanns BSRB og eins skipuleggjanda verkfallsins, væri virkilega annt um þátttakendur kvennaverkfallsins myndu þeir bjóðast til að greiða þeim tekjutap, sem af hlýst við að leggja niður störf, úr verkfallssjóðum sinna verkalýðsfélaga. Það er ósanngjarnt að ætlast til þess að atvinnurekendur þurfi að borga þátttakendum laun meðan þau leggja niður störf og bera á sama tíma kostnað af þeim ráðstöfunum sem grípa þarf til að viðkomandi geti lagt niður störf. Það hentar þó að sjálfsögðu verkalýðsfélögum mjög vel að krefjast þess að atvinnurekendur greiði starfsfólki sínu laun þrátt fyrir að það leggi niður störf, enda léttist verkfallssjóður þeirra þá ekki um leið.

Týr vill árétta það að hann vill rétt eins og skipuleggjendur kvennaverkfallsins að sjálfsögðu útrýma kynbundnu ofbeldi og að stuðlað sé að launajafnrétti. Aftur á móti má tilgangurinn ekki helga meðalið. Þó að skipuleggjendum gangi gott eitt til er ótækt að tekinn sé saman „tossalisti“ yfir fyrirtæki sem að einhverjum ástæðum sjá sér ekki fært um að ganga að kröfum skipuleggjenda.

Ólíkt því sem herskáir verkalýðsforingjar halda oft fram eru flestir atvinnurekendur harðduglegt fólk sem vill starfsfólki sínu vel. Þó að einhverjir þeirra geti ekki leyft sér að gefa öllum konum og kvárum sem hjá þeim starfa launað frí á morgun, er ótækt að birta nafn fyrirtækis þeirra á opinberum tossalista með tilheyrandi orðsporstjóni og fordæmingu almennings. Það er samfélaginu allt annað en til góðs að einkafyrirtæki sem skapi verðmæti og störf séu niðurlægð opinberlega með slíkum hætti. Um það hljótum við öll að vera sammála.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.