Lífskjör hér á landi eru með eindæmum góð í alþjóðlegum samanburði. Það hefur ítrekað verið staðfest með ýmis konar mælikvörðum. Vafalaust eru laun besti og einfaldasti mælikvarðinn í því samhengi, þótt sannanlega megi einnig horfa til annarra þátta.

Ísland er hálaunaland í alþjóðlegum samanburði. Það þýðir jafnframt að launakostnaður fyrirtækja sem hér starfa er almennt hærri en í öðrum ríkjum. Þetta má til að mynda sjá í gögnum frá Hagstofu Evrópusambandsins um launakostnað á klukkustund, sem samanstendur af launum og tengdum gjöldum. Ísland er ávallt ofarlega í röðinni yfir þau lönd þar sem launakostnaður er hvað hæstur. Árið 2022 skipaði Ísland þriðja sætið af þeim 29 Evrópulöndum sem voru til samanburðar.

Launakostnaður er sem áður segir hár og launahækkanir jafnvel umfram það sem tíðkast annars staðar, ár eftir ár. Vitaskuld er launakostnaður mishár eftir atvinnugreinum innanlands, en hátt almennt launastig í landinu smitar út frá sér. Fyrirtæki verða að greiða samkeppnishæf laun innanlands til þess að fá fólk til starfa. Verðlag í landinu fer einnig eftir því og það hefur, eðli máls samkvæmt, áhrif á rekstrarkostnað fyrirtækjanna.

Alþjóðleg samkeppni

Útflutningsfyrirtæki geta almennt ekki velt hækkandi innlendum kostnaði, líkt og launakostnaði, út í verð. Þau starfa í samkeppni við erlend fyrirtæki sem ekki búa við sambærilegan kostnað og hin íslensku fyrirtæki, auk þess sem smæð íslensks sjávarútvegs úti í hinum stóra heimi sjávarafurða veldur því að við erum að mestu leyti verðþegar. Fyrirtækin þurfa því oft og tíðum að grípa til hagræðingaraðgerða til þess að draga úr kostnaði. Annað hvort með því að fækka fólki með aukinni tæknivæðingu eða flytja störf úr landi. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa frekar farið fyrri leiðina, enda leggja þau ríka áherslu á verðmætasköpun heima fyrir, þar sem samfélagið allt nýtur ábatans.

Útflutningur á óunnum fiski til vinnslu í láglaunalöndum er mjög lítill hér á landi, líkt og greina má af meðfylgjandi mynd, og fjárfesting í hátæknivæddum fiskvinnslum ber skýrt vitni um þessa mikilvægu áherslu íslensks sjávarútvegs. Þetta er fjarri lagi sjálfgefið. Nægir til að mynda að líta til Noregs, þar sem þorskurinn er að verulegu leyti fluttur óunninn út til vinnslu í Kína og Póllandi, þar sem laun eru mun lægri. Fyrir vikið verður hið norska samfélag af störfum og skatttekjum. Þegar rætt er um framlag sjávarútvegs til samfélagsins hér á landi er mikilvægt að þekkja og viðurkenna þennan þátt, í stað þess að líta einvörðungu til beinna skatta fyrirtækjanna.

Íslenskur sjávarútvegur er stoltur af framlagi sínu til góðra lífskjara hér á landi, þar sem starfsöryggi í greininni er gott og laun góð. Þessi staðreynd er mikilvægur þáttur í góðri sögu íslensks sjávarútvegs í alþjóðlegri samkeppni. Það er tómt tal að flagga sjálfbærni við sölu á fiski ef fólkið sem veiðir hann og vinnur býr ekki við öruggt og gott starfsumhverfi og fær ekki fyrir vinnu sína laun sem geta stuðlað að innihaldsríku lífi hér á landi. Því miður er slík staða alþekkt í hinum alþjóðlega heimi sjávarútvegs. Það er síst raunin hér enda eru laun, bæði á sjó og í fiskvinnslu, með þeim hæstu í heimi. Íslendingar skjóta í það minnsta Norðmönnum ref fyrir rass í þeim efnum, þrátt fyrir að launakostnaður í Noregi sé sá hæsti í Evrópu og töluvert hærri en á Íslandi þegar litið er á meðaltal atvinnugreina.

Treystum undirstöðurnar

Það er til mikils að vinna fyrir íslensks samfélag að treysta samkeppnishæfni sjávarútvegs. Ekki aðeins í ljósi fyrrgreindra staðreynda, heldur einnig fyrir þær sakir að framleiðni í sjávarútvegi er há, hvort heldur borið er saman við alþjóðlegan sjávarútveg eða útflutningsatvinnuvegi hér heima. Í skýrslu McKinsey, Charting the Growth Path for Iceland, sem kom út árið 2012, sagði orðrétt: „Sjávarútvegurinn er besta dæmið um atvinnugrein sem hefur náð mikilli framleiðni bæði vinnuafls og fjármagns, með heilbrigðu regluverki og áhrifum alþjóðlegrar samkeppni. Frekari framleiðniaukning, sem drifin er áfram af fjárfestingum og bættri tækni, krefst hins vegar stöðugs og vel ígrundaðs regluverks.“ Það er mikilvægt að hafa þetta að leiðarljósi þegar skapa á skilyrði til frekari verðmætasköpunar sjávarútvegs fram veginn.

Þó að við getum verið ánægð með þann árangur í sjávarútvegi sem hér hefur verið vikið að, þá er mikilvægt að vinna öllum stundum að því að treysta áfram þær undirstöður sem góð lífskjör byggjast á. Lífskjör þjóða velta ekki á fjölda starfandi eða magni útflutnings, heldur á framleiðni, og þar hefur sjávarútvegur verið leiðandi afl í íslensku hagkerfi. Mikilvægt er að varðveita þá stöðu. Það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda og atvinnugreinarinnar – og það verkefni klárast aldrei.

Höfundur er framkvæmdastjóri SFS.

Greinin birtist í sérblaði Viðskiptablaðsins um ársfund SFS. Hægt er að lesa blaðið hér.