Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og félagar í samninganefnd VR og LÍV ákváðu á dögunum að draga sig út úr samstarfi við hina svokölluðu breiðfylkingu. Að sögn Ragnars Þórs náðist ekki samkomulag innan breiðfylkingar um leiðir sem varða forsenduákvæði kjarasamninganna.

Í viðtali við Ríkisútvarpið greindi Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, frá því að viðræður við VR hafi strandað þar sem það hafi munað um 0,2% á hugmyndum VR um verðbólguviðmið sem forsenduákvæði í samningnum og því sem samkomulag náðist svo um.

Ragnar Þór hefur ekki treyst sér til að útskýra fyrir sínum félagsmönnum og öðrum hvað það nákvæmlega var sem leiddi til viðræðuslitanna þar sem það sé of flókið en í grunninn hafi þeim ekki þótt forsenduákvæðin „ganga nógu langt“. Hann brást svo við ummælum Sigríðar á sinn yfirvegaða hátt og sagði þau sýna hana í réttara ljósi; hvað hún væri tilbúin að leggjast lágt til að koma höggi á mótaðilann.

***

Frekjuköst Ragnars Þórs, eru svo sannarlega ekki ný af nálinni en Týr veltir aftur á móti fyrir sér hvers vegna Ragnar Þór telur hag sínum og sinna félagsmanna betur borgið utan breiðfylkingarinnar. Kjarasamningar breiðfylkingar og SA munu óhjákvæmilega draga línu í sandinn og vera fyrirmynd í kjarasamningsgerð SA við önnur verkalýðsfélög. Af virðingu við mótaðila sína og til að sprengja ekki nýgerða samninga við stór verkalýðsfélög í loft upp mun SA aldrei samþykkja að gera sérsamning við VR sem er nær óskilgreindum kröfum formanns VR.

Þetta ætti Ragnar Þór að vita manna best, enda komið að gerð kjarasamninga um árabil. Að sama skapi hlýtur hann að átta sig á því að stemningin fyrir verkfallsátökum er lítil sem engin í samfélaginu.

***

Í raun þarf ekki að líta lengra aftur í tímann en til kjaraviðræðna á síðasta ári er Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, gerði það sama og Ragnar Þór gerði nú. Sólveig þóttist með þessu geta gert betri samninga upp á eigin spýtur en varð ekki kápan úr þeim klæðunum.

Týr getur ekki ímyndað sér annað en að millistjórnendur í VR iði í skinninu að fá að fylgja foringja sínum í verkfall. Ef í harðbakka slær og verkföllin dragast á langinn verður fróðlegt að sjá hvort SA boði svo verkbann á milljónafólkið.

Týr er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þessi pistill birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.