Framganga margra forsetaframbjóðenda í umræðuþætti fréttastofu Stöðvar 2 í síðustu viku vakti furðu. Það er að segja þeim hluta umræðunnar sem sneri að alþjóðamálum. Sérstaklega þegar talið barst að stuðningi íslenskra stjórnvalda við Úkraínu sem hefur nú um tveggja ára skeið þurft að verjast landvinningastríði Rússa inn í land sitt og berjast gegn því ofurefli sem þar er við að etja.

Framganga margra forsetaframbjóðenda í umræðuþætti fréttastofu Stöðvar 2 í síðustu viku vakti furðu. Það er að segja þeim hluta umræðunnar sem sneri að alþjóðamálum. Sérstaklega þegar talið barst að stuðningi íslenskra stjórnvalda við Úkraínu sem hefur nú um tveggja ára skeið þurft að verjast landvinningastríði Rússa inn í land sitt og berjast gegn því ofurefli sem þar er við að etja.

Virtist það vera nokkuð útbreidd skoðun meðal frambjóðendanna að Ísland hefði betur látið vera að taka þátt í kaupum tékkneskra stjórnvalda á skotfærum handa hinum stríðshrjáðu Úkraínumönnum svo að þeir geti varið hendur sínar gegn innrásarher Rússa. Það bryti í bága við hlutleysi landsins og raunar á flestum þeirra að skilja að best færi á því að hinir friðelskandi Íslendingar drægju sig sem mest út úr vestrænu varnarsamstarfi.

Þannig sagði Arnar Þór Jónsson, fyrrverandi héraðsdómari, það óforsvaranlegt að vikið hefði verið frá hlutleysisstefnu Íslands. Halla Tómasdóttir var á sömu slóðum. Í frétt Vísis um umræðurnar segir:

Friður væri eitt af grunngildum þjóðarinnar og sagðist Halla telja að aðrar leiðir væru fyrir Ísland til að vera þátttakandi í varnarbandalagi en að taka þátt í „sókn“ með vopnakaupum.“

Hvaða sókn er Halla að ræða um? Er varnarhernaður Úkraínumanna gegn Rússum í eigin landi „sóknarstríð“ að hennar mati? Á sama tíma ræddi Halla Hrund Logadóttir um hjúkrunarfræðinga og jarðvarma í þessu samhengi. Stjórnmálafræðiprófessorinn Baldur Þórhallsson sagði hins vegar að íslensk stjórnvöld ættu að biðja um undanþágu hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO) frá því að veita framlög til vopnakaupa.

Jón Gnarr sagðist ekki vita nægilega mikið um vopnakaupamálið en var þó aðeins annar tveggja frambjóðenda í salnum til þess að gera sér grein fyrir að íslensk stjórnvöld reka ekki hlutleysisstefnu í alþjóðamálum og standa þéttilega við bak Úkraínumanna ásamt helstu vinaþjóðum innan og utan NATO í baráttunni gegn landvinningastríði Rússa.

Einhverjum kann því að þykja það gráglettni sögunnar, að það skyldi vera Katrín Jakobsdóttir, sem þar talaði af mestri einurð, ábyrgð og raunsæi um samstöðu vestrænna lýðræðisríkja í varnar- og öryggismálum, hvers vegna Íslendingum bæri að leggja Úkraínu lið og standa með vinaþjóðum og bandamönnum vörð um frelsið.

Afstaða hinna frambjóðendanna er illskiljanleg í ljósi þess að deilur um vestrænt samstarf á þessu sviði eru fyrir nokkru úr sögunni. Skoðanakannanir hafa staðfest að almenningur á Íslandi er líkt og annars staðar í Evrópu eindregið áfram um það samstarf, gengur í raun út frá því sem vísu, en stuðningur við Úkraínumenn í frelsisbaráttu þeirra gegn ofríki Rússa er einrofa.

Rétt er að minna hina villuráfandi frambjóðendur á að þessi stefna stjórnvalda var staðfest með öllum greiddum atkvæðum á Alþingi, um að Ísland styðji við Úkraínu, með því sem þarf; gegn árás Rússlands á bæði Úkraínu og það kerfi sem friður okkar og öryggi, frelsi okkar og alþjóðaréttur byggir á.

Bjarni Már Magnússon, prófessor og deildarstjóri lagadeildar Háskólans á Bifröst, benti á hversu vandræðalegur málflutningur sumra frambjóðenda var í þættinum. Í aðsendri grein á Vísi segir Bjarni:

Það er áhyggjuefni að frambjóðendur sem vilja láta taka sig alvarlega sem forsetaefni gerist berir af þeirri vanþekkingu á utanríkishagsmunum, utanríkisstefnu og sögu Íslands eins og gerðist í umræðunum í gær. Fyrir þann sem ekki vissi betur gæti sá grunur vaknað að talpunktar Kremlar hafi skotið rótum í umræður íslenskra forsetaframbjóðenda. Þótt vitaskuld séu frambjóðendurnir ekki að flytja slíka talpunkta þá er það raunverulegt vandamál ef það hljómar þannig. Frambjóðendur til embættis forseta þurf að vera nægilega læsir á stöðuna í heimsmálum til þess að tala ekki með þeim hætti að slíkar grunsemdir vakni.

Bjarni segir í grein sinni að frambjóðendurnir verði að taka af allan vafa um hvort þeir styðji þá stefnu stjórnvalda og annarra vestrænna ríkja um að ætla óhikað að taka afstöðu með Úkraínu og við helstu vina- og bandalagsríkja okkar, gegn bæði innrás Rússlands í Úkraínu og undirróðri þeirra gegn þeim gildum sem vestræn samfélög eru reist á.

Vonandi er að þau svör komi fram sem fyrst. Kjósendur eiga réttmæta kröfu á að þau komi þegar í stað. Því ef fjórir af sex fremstu forsetaframbjóðendum velkjast í þessum vafa um slíkt grundvallarmál, er mikill vafi á að þeir eigi minnsta erindi í æðsta embætti þjóðarinnar til þess að vera andlit Íslands út á við.

Þessi leiðari Viðskiptablaðsins birtist í blaðinu sem kom út 22. maí 2024.