Andstæðingar sjókvíaeldis hafa reynt ýmislegt til að koma höggi á atvinnugreinina. Við vitum eiginlega aldrei úr hvaða átt næsta gusa kemur. Sumar þeirra eru allt að því málefnalegar, en aðrar þannig að þær verðskulda varla svar.

Ein sú síðasta er þó sett fram með þeim hætti að við getum ekki orða bundist. Hagfræðistofnum Háskóla Íslands gerði rannsókn á íbúaþróun á Vestfjörðum fyrir þessa andstæðinga eldisins. Niðurstaðan er til dæmis að íbúum hafi fjölgað, meðallaun hafi hækkað, íbúðaverð þrefaldast og skatttekjur aukist.

Byggðir sem áður voru brothættar hafa blómstrað og atvinnutækifærum hefur fjölgað. Það leikur enginn vafi á því að vegna meðal annars fiskeldis eru lífsskilyrði á Vestfjörðum mun betri nú en áður. Þetta nær þó ekki að gleðja félaga í íslenska náttúruverndarsjóðnum. Það er nefnilega engu líkara en að útlendingum hafi fjölgað á Vestfjörðum! Niðurstaða náttúruverndarsinna virðist helst vera að þessir hræðilegu útlendingar hafi flæmt Íslendinga á brott.

Fólk sem hingað flytur og gerir samfélagið á allan hátt betra með vinnusemi sinni á allt annað skilið en svona vindhögg.

Útlendingar eru reyndar hlutfallslega mun færri á Vestfjörðum en víða á Suðurlandi, sem dæmi, en þar er að vísu ekki sjókvíaeldi. Það er einmitt sú atvinnugrein sem skýrir þessa andúð náttúruverndarsinna á útlendingum.

Nú langar mig að benda á mikilvægar staðreyndir. Erlent vinnuafl hefur reynst lykilatriði til að treysta verðmætasköpun og halda uppi miklum lífsgæðum hér á landi. Fólk hefur flust hingað og gengið í mikilvæg störf sem ekki hefur tekist að manna. Koma þeirra er einfaldlega og óumdeilanlega grundvöllur hagvaxtar á Íslandi. Með liðsinni fólks sem er af erlendu bergi brotið hefur okkur tekist að halda okkur í hópi sterkustu samfélaga heims. Og um leið hefur flóra mannlífs og menningar orðið fjölbreyttari.

Fólk sem hingað flytur og gerir samfélagið á allan hátt betra með vinnusemi sinni á allt annað skilið en svona vindhögg.