Fyrir tveimur vikum rann út frestur til að skila inn athugasemdum við frumvarp fjármálaráðherra um slit ógjaldfærra opinberra aðila.

Kveikjan að frumvarpinu er að í fjármálaráðuneytinu hefur á síðustu árum verið unnið að því að skapa grundvöll til að vinna úr eignum og skuldum Íbúðalánasjóðs (ÍLS). Forsaga skulda Íbúðalánasjóðs er að á árinu 1989 hóf Húsnæðisstofnun ríkisins útgáfu Húsbréfa til að fjármagna lán til húsnæðiskaupa almennings. Allt frá upphafi voru bréfin með ábyrgð ríkissjóðs og gefin út þannig að aðgengilegt væri fyrir almenna fjárfesta að kaupa bréfin til að ávaxta sparnað sinn á hagkvæman, áhættulausan hátt.

Með lögum 2004 var fjármögnun ÍLS breytt í grundvallaratriðum að því leyti að hafin var útgáfa nýrra skuldabréfa, HFF, sem ekki fólu í sér heimild ÍLS til að greiða lánin upp. Þetta var gert þrátt fyrir að lánin sem ÍLS veitti landsmönnum til húsnæðiskaupa væru uppgreiðanleg umfram skilmála þeirra. Þannig varð til í ÍLS áhætta af því að sjóðurinn fengi inn fjármuni sem fyrirframgreiðslur á lánum sem sjóðurinn þyrfti að ávaxta.

Útgáfa HFF bréfanna gekk vel og voru gefnir út 4 flokkar, HFF14, HFF24, HFF34 og HFF44. Bréfin voru öll svokölluð jafngreiðslubréf sem felur í sér að greidd er sama upphæð til baka á öllum gjalddögum, verðtryggt.

Þetta fyrirkomulag bréfanna gerir þau einstaklega góð sem fjárfestingu fyrir aðila sem vill tryggja sér jafnt fjárflæði af fjárfestingu sinni til langs tíma.

Jón og Gunna fædd 1954 kaupa HFF44

Tökum tilbúið dæmi af hjónum sem nú eru tæplega 70 ára gömul. Þau ráku og áttu lítið fyrirtæki. Fyrir 5 árum seldu þau fyrir-

tækið fyrir nokkra upphæð og fjárfestu í HFF44 til að tryggja sér jafnt fjárstreymi af bréfunum til 2044 þegar þau yrðu orðin 90 ára gömul. Með tilkynningu fyrr á þessu ári þess efnis að vilji stæði til þess að breyta lögum til að loka megi ÍL-sjóði komst fjárfesting þeirra í uppnám að því leyti að markaðurinn með bréfin þeirra varð algerlega óskilvirkur. Tilboð í bréfin voru fá og öll á eða um það bil á pari eða á verðinu 100 sem þýddi að ef þau af einhverjum ástæðum þyrftu að selja þá væru kjörin ekki í neinu samræmi við kjör á sambærilegum ríkisskuldabréfum. Jón og Gunna þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu þar sem þau eru við góða heilsu, ætla að eiga bréfin til lokagjalddaga og ef ÍLS getur ekki borgað þá tekur ríkið við sem greiðandi, enda ríkisábyrgð til staðar fyrir greiðslunum.

Nú er staðan sú að fram er komið frumvarp um að setja ÍLS í þrot og skila Jóni og Gunnu fjárfestingunni til baka. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þau lýsi kröfum í búið og fái greitt úr þrotabúinu þegar því hefur verið slitið. Þetta truflar öll þeirra plön þar sem þau höfðu áður tryggt sér góða ávöxtun til 2044. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir að þau geti sótt bætur eftir lokagjalddaga bréfsins 2044 hafi ávöxtun á því sem þau fá til baka við slit ÍLS ekki verið jöfn því sem skuldabréfin bera, sem eru 3,75% raunvextir. Þau þurfa því að halda utan um hvernig fjárfestingin sem þau fá til baka ávaxtast til 2044. Þá ná þau því vonandi að vera orðin 90 ára gömul og þurfa að fá sér lögmann til að sækja rétt sinn til bóta úr hendi ríkissjóðs vegna ónógrar ávöxtunar. Ef þau eru ekki svo lánsöm að njóta svo mikils langlífis þá er betra fyrir erfingja þeirra að halda vandlega utan um þessar kröfur sem dánarbú þeirra kann að öðlast á hendur ríkissjóði eftir 2044. Í þessu tilviki er síðan vandséð hvernig erfingjar Jóns og Gunnu halda utan um vaxtakröfuna ef þeir freistast til að nota arfinn með öðrum hætti en til að kaupa ríkisskuldabréf.

Það er skoðun mín að það frumvarp sem verið hefur til umsagnar undanfarið sé ekki í samræmi við það loforð sem, þeim fjárfestum sem hafa stutt við fjármögnun Íbúðalánasjóðs á síðustu áratugum, var gefið og verr af stað farið en heima setið.

Höfundur er hagfræðingur.