Eftir tveggja ára þrautagöngu faraldursins og einhver snjóþyngstu vetrarlok í manna minnum fáum við nú loksins að njóta sumarsins til fulls. 13 gráður og sólríkt á köflum, grillveisla eða kokteilpartí með öllum bestu vinum og vandamönnum og svo auðvitað beint í bæinn.

En stóraukin umsvif skemmtanalífsins eftir langan dvala hafa endurvakið fleira en von í brjósti veitingafólks og ungmenna. Samhliða því hefur gamalt þrætuepli þjóðarinnar nú skotið upp kollinum á ný: leigubílakerfið.

Við þekkjum öll umræðuna. Forneskjulegar fjöldatakmarkanir sem svo til ekkert hafa verið uppfærðar í takt við mannfjöldaþróun skapa ófremdarástand þegar staðirnir fara að loka og allur skarinn flykkist út á götur borgarinnar – og beint í leigubílaröðina – á sama tíma. Við þær bætast svo glórulausar kröfur á borð við meirapróf og stöðvaskyldu og niðurstaðan – eins og flestir eflaust þekkja á eigin skinni – er löng bið og drjúgt fargjald þegar henni loks lýkur.

Þótt við kunnum að hugsa löggjafanum þegjandi þörfina meðan við bíðum berum við þó flest hlýjan hug til og virðingu fyrir leigubílstjórum, sem vinna sleitulaust langt fram eftir morgni við að koma öllum heilum og höldnum heim. Við vitum líka sem er að þeir lifa ekki í vellystingum þrátt fyrir verðið, og hugsum kannski með okkur áður en við leggjumst á koddann fegin að vera komin heim að kannski sé óþarfi að vera að umbylta kerfinu.

Kvaðirnar í lögum um leigubifreiðar eru nefnilega hárfín jafnvægislist, þó það hafi ólíklega verið hugsunin á sínum tíma. Stærsti skaðvaldurinn er tvímælalaust 9. gr sem hefst á orðunum „Leyfishafi skal hafa leigubifreiðaakstur að aðalatvinnu.“

Með þessu eru allir sem vilja skutla fólki löglega heim af djamminu gegn greiðslu skyldaðir til að dúsa í bílnum sínum verkefna- og tekjulitlir alla vikuna. Þeir taka auðvitað nokkrar ferðir hér og þar, en á talsvert lægri taxta, og hafa upp úr krafsinu sennilega eitthvað á við meðallaun í þokkalega stæðu þriðja heims ríki ef aðeins er horft á virku dagana. Það gefur því auga leið að það þarf að hala hressilega inn um helgar til að hífa meðaltímakaupið fyrir alla vikuna upp í þolanlega tölu.

Væri markaðurinn óheftur að öðru leyti myndi samkeppni keyra helgartaxtann niður líka og kjörin með (rétt eins og Uber). En það þykir löggjafanum auðvitað ótækt, og því eru fjöldatakmörk, þó þau hafi eflaust verið réttlætt á einhvern mun fallegri og óræðari hátt.

Með lögbundnar framboðstakmarkanir er í sjálfu sér lítið því til fyrirstöðu að hækka verð um helgar þegar eftirspurnin er bæði óþrjótandi og afar ónæm fyrir verðbreytingum, og með myllustein aðalatvinnuskyldunnar um hálsinn hafa leigubílstjórar og -stöðvar fullt tilefni til.

Á virkum dögum snýst dæmið svo við. Leigubílstjórar sitja unnvörpum í kyrrstæðum bílum sínum, líkast til vel búnir snjalltækjum til að stytta sér stundir og þakka eflaust fyrir að vera uppi á tímum nettengdra síma.

Ekki er nóg með að framboð leigubíla sé langt umfram eftirspurn, heldur eru bílstjórarnir nú komnir í samkeppni við Strætó, reið- og rafhlaupahjól og stórbætta útsjónarsemi tilvonandi farþega, sem loksins er runnið almennilega af eftir helgina.

Við þessum öfgakenndu andstæðum í samkeppnisumhverfi leigubílstjóra hefur stéttin meðal annars brugðist með því að miðstýra verði innan leigubílastöðva, sem þeir verða jú lögum samkvæmt að tilheyra.

Niðurstaðan er starfsumhverfi þar sem leigubílstjórar eru láglaunastétt þrátt fyrir að þjónustan sé í dýrari kantinum í öllum samanburði. Með því að benda á kjörin hefur tekist að skapa samúð og hik sem haldið hefur aftur af þrýstingi um afnám hinna hjákátlegu en lífseigu fjöldatakmarkana og annarra aðgangshindrana.

Með því að lögbinda ekki aðeins hámark á framboð leigubíla, heldur bann við nokkrum sveigjanleika þess til að mæta miklum en reglubundnum sveiflum á eftirspurn, hefur löggjafanum þannig tekist að skapa slíkt óhagræði að verð leigubílaaksturs er langtum hærra en ella á sama tíma og framboðið er tilfinnanlega skert, án þess þó að nokkur græði á því.

Ógerningur er að leggja mat á þann skaða sem þetta hefur valdið í áranna rás, ekki aðeins fjárhagslegum heldur þeim sem af getur hlotist þegar bíll er hreinlega ekki í boði eða verðið fær fólk til að freista þess að koma sér heim sjálft. Þegar upp er staðið eru það þó leigubílstjórar sjálfir sem mest líða fyrir fjötra núverandi kerfis.