Skemmtikrafturinn Emilio Santoro mun mæta sem konungur rokksins í fyrsta sinn á Íslandi með verðlaunaða sýningu sína í gervi Elvis Presley. Þessi þekkti skemmtikraftur mun stíga á svið í Eldborgarsal Hörpu þann 20. september nk. en Emilio er núna á tónleikaferðalagi um Bretland og er alls staðar uppselt á sýningar hans.

Emilio Santoro er fæddur í Bretlandi og hefur unnið bæði heims- og Evrópukeppnir í hlutverki goðsagnarinnar, meðal annars í heimaborg Elvis, Memphis í Tennessee. Hann heillaði áhorfendur eftirminnilega í úrslitum America’s Got Talent 2022.

Emilio kemur fram með fimm manna hljómsveit, The Creoles, auk bakradda og mun lofsyngja Elvis á hans yngri árum á stórbrotinn máta. Á efnisskránni eru margir af frægustu rokksmellum sögunnar, þar á meðal Jailhouse Rock, Devil in Disguise, Can’t Help Falling in Love, Hound Dog, Always on My Mind.

„Fólk mun hvorki trúa eigin augum né eyrum þegar Emilio stígur á svið sem Elvis. Hann hefur frábært raddsvið og með frábæru úrvali búninga líkist hann á einhvern undarlegan hátt sjálfum kónginum. Emilio skilar frábærri kvöldskemmtun og ætlar sér að taka Reykjavík með trompi,“ segir James Cundall, framleiðandi hjá breska fyrirtækinu Jamboree Entertainment.