VEST hefur áður haldið listasýningar undir handleiðslu Elísabetar Helgadóttur, eiganda húsgagnaverslunarinnar VEST og nú þegar vor er í lofti er komið að fyrstu sýningu ársins, í þetta sinn með Halldóri Ragnarssyni. Sýningin, sem verður hjá VEST að Ármúla 17, opnar á morgun kl. 17:30.

„Serían, Loksins engin orð, eftir Halldór greip mig á annan hátt en listaverk hafa áður gert og úr varð að eitt þeirra verka klæðir stofuvegginn heima. Ég er hvergi nærri hætt að safna verkum eftir Halldór enda er hann alltaf að þróast og finnst mér nýja serían hans slá öðrum við,“ segir Elísabet.

Sýningin „Sófamálverk” er hugtak sem hefur oft verið kastað á milli listamanna í gegnum árin. Hugtakið er í raun neikvætt fyrirbrigði og í orðinu felst að málverk séu jafnvel „sellout-leg” og gerð til þess að passa sérstaklega við liti og anda einhvers ákveðins rými, sófa eða heimilis.

Á sýningunni Sófamálverkin, rýnir myndlistarmaðurinn Halldór Ragnarsson á sinn kaldhæðnislega hátt í hugtakið og einblínir sérstaklega á neikvæðnina og mótsögnina sem felst í hugtakinu.

Elísabet Helgadóttir, eigandi húsgagnaverslunarinnar VEST
Elísabet Helgadóttir, eigandi húsgagnaverslunarinnar VEST