Kvikmyndin The Zone of Interest, sem er nú sýnd í Bíó Paradís, er sannsöguleg mynd sem segir frá lífi Rudulf Höss, sem var yfirmaður í útrýmingarbúðunum í Auschwitz. Myndin greinir frá lífi hans og fjölskyldu en þau bjuggu í fallegu húsi sem staðsett var við hlið útrýmingarbúðanna.

Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Cannes þar sem hún vann dómnefndarverðlaunin og er tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna, meðal annars sem besta myndin og besta erlenda myndin.

Rudolf Höss var þýskur foringi í SS-sveit nasista í seinni heimsstyrjöldinni. Áður en hann var hengdur fyrir stríðsglæpi sína var hann yfirforingi í útrýmingarbúðunum í Auschwitz frá 1940 til 1943 og svo aftur frá 1944 til 1945. Hann er talinn hafa borið ábyrgð á dauða milljón fanga í útrýmingarbúðunum.

The Zone of Interest byrjar á því að sýna fjölskyldu Höss syndandi í á skammt frá búðunum á sólríkum sumardegi. Fjölskyldan lifir öll friðsælu lífi á heimili sínu hinum megin við vegg frá búðunum og eyðir tíma sínum í fallegum garði eða í matarboðum.

Myndin er ólík mörgum öðrum myndum sem fjalla um útrýmingarbúðir nasista að því leytinu til að áhorfendur sjá í raun aldrei hryllinginn sjálfan. Það er aðeins gefið í skyn hvað á sér stað hinum megin við vegginn en reglulega heyrast byssuskot, öskur og hundar að gelta. Á kvöldin sést svo reykmökkur úr ofnunum eða lest á leið til útrýmingarbúðanna.

Einu fangarnir sem sjást í myndinni eru þeir gyðingar sem fá að þjóna húsbóndanum og fjölskyldu með því að hella víni í glös eða þvo fötin þeirra. Myndin gefur einnig í skyn að Höss hafi átt í kynferðislegu sambandi við fanga Auschwitz.

Það er ekki erfitt að sjá hvers vegna The Zone of Interest er tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna. Hún sýnir hliðar stríðsins sem eru sjaldséðar á hvíta tjaldinu og skapaði alvarleiki myndarinnar það mikla þögn í nánast fullum bíósal og það var varla hægt að heyra poppkorn detta á gólfið.

Fyrir utan Schindler‘s List er varla hægt að finna jafn góða mynd sem fjallar jafn ítarlega um hrylling útrýmingarbúða, meðvirkni fjölskyldna og illsku mannskepnunnar.