Sigurður Sævar Magnúsarson opnaði einkasýningu á verkum sínum í Gallerí Portfolio á Hverfisgötu 71 í fyrradag. Fjöldi gesta mætti á opnunina en þetta er fyrsta einkasýning Sigurðar Sævars hérlendis, eftir útskrift frá Konunglegu listaakademíunni í Haag í sumar.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sýningin í Gallerí Portfolio ber heitið Millilending og er vísun í tímamót í lífi listamannsins þar sem hann teflir saman minningum úr lífi sínu síðustu misserin. Í verkum Sigurðar Sævars má finna fyrir sögur eða augnablik sem eru sprottin út frá minningum sem hann síðan yfirfærir á strigann.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Minningar geta í sjálfu sér verið blanda af atburðum og upplifunum og má það nema í verkum Sigurðar Sævars sem súrrealisma sem hann setur fram á léttan hátt. Verkum Sigurðar Sævars má líkja við óræð senubrot en þau eru unnin með það í huga að vera áhorfandanum aðgengileg, til að mynda með tilvísun í ákveðinn kunnugleika og kennileiti sem veitir hverjum og einum svigrúm til að setja eigin meiningu í myndverkin.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sigurður Sævar hóf ungur feril sinn á sviði myndlistar og hefur frá árinu 2015 unnið verk með olíu á striga. Hann hefur tekið þátt í samsýningum og haldið sýningar í Hörpu, í Perlunni, í Kringlunni og í eigin húsnæði sem áður hýsti Veitingahúsið Argentínu á Barónsstíg.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Í framhaldi af útskriftarsýningu hans frá Konunglegu listaakademíunni, síðastliðið sumar 2023, voru verk hans valin á samsýningu í Ron Mandos galleríinu í Amsterdam á sýninguna Best of Graduates 2023.

© Aðsend mynd (AÐSEND)