Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, gefur út bókina Eyjan hans Ingólfs nú fyrir jólin. Bókin fjallar um sköpunarsögu íslensku þjóðarinnar en þráðurinn í sögunni er fjölskyldusaga Ingólfs Arnarssonar.

„Bókin mín byggir á Landnámabók Íslands sem geymir fjölskyldusögur 430 landnámsmanna, karla og kvenna. Sumar sögurnar eru sorglegar, aðrar ævintýralegar en allar fullar af von um nýtt líf. Hér er gerð tilraun til að fella þessar mörgu litlu sögur saman í eina stóra Íslandssögu í samhengi við aðrar heimildir, líkt og írska, skoska og enska annála," segir Ásgeir í færslu á Facebook síðu sinni í morgun.

Fyrir jólin í fyrra gaf Ásgeir út bókina Uppreisn Jóns Arasonar þar sem hann reynir að varpa ljósi á persónu Hólabiskups, greina frá bandalagi hans við Þjóðverja og áformum um landráð.