Ragnar Jónsson rithöfundur upplýsti í sjónvarpsþættinum Vikunni með Gísla Marteini í kvöld, að hann væri að leggja drög að nýrri glæpasögu. Það sem meira er hann sagði að hún yrði skrifuð af honum og Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra. Sögusviðið verður Reykjavík árið 1986 og Viðey mun koma við sögu. Meira var ekki sagt um baksvið og efnistök bókarinnar.

Bæði Ragnar og Katrín voru gestir í þætti Gísla Marteins í kvöld og játaði Katrín því að á döfinni væri að skrifa bók með Ragnari. Hún sagðist reyndar óttast að hún hefði ekki nægan tíma vegna anna í Stjórnarráðinu en samt sem áður þá væri þetta eitthvað sem þau hefðu rætt um saman. Hugmyndin kviknaði þegar þau hittust saman á kaffihúsi í Reykjavík í janúar síðastliðnum.