Framleiðslufyrirtækið LJÓS films var stofnað árið 2021 og þrátt fyrir stutta starfsemi hefur fyrirtækið rutt sér til rúms í íslensku kvikmyndasenunni. Fyrirtækið var stofnað í kringum fyrstu kvikmynd þess, Harmur, sem rataði meðal annars í Sambíóin í febrúar 2022.

Á dögunum var svo gefin út þáttaserían Gestir í Sjónvarpi Símans Premium og samkvæmt L JÓS films rataði serían í fyrsta sæti á vinsældarlista yfir síðustu helgi.

Halldór Ísak Ólafsson, einn af stofnendum LJÓS films, segir í samtali við Viðskiptablaðið að allir þeir sem komi að fyrirtækinu séu á bilinu 23 til 25 ára og sé mikið lagt upp úr því að fá ungt og efnilegt fólk inn í verkefni þeirra.

„Við erum þrír sem eiga fyrirtækið. Það er ég, Anton Karl Kristensen og Ásgeir Sigurðsson, sem kemur líka fram í sjónvarpsþáttunum og Harmi.“

Hann segist hafa kynnst Ásgeiri meðan þeir voru saman í Borgarholtsskóla en Ásgeir og Anton voru meðal annars æskuvinir. „Við hittumst svo allir og fundum að við vorum allir sammála og unnum vel saman. Síðan var bara fyrirtækið stofnað í kringum myndina Harmur sem kom út 2021.

© Samsett (SAMSETT)

Framleiðsla myndarinnar fór fram í miðjum heimsfaraldri og var hún nánast öll fjármögnuð af þeim þremur. „Það voru bara sumarlaunin sem fóru í hana, en Gestir er hins vegar fjármagnað af Sjónvarpi Símans ásamt 25% endurgreiðslunni.“

Halldór segir að þrátt fyrir minna fjármagn þá veiti fjárhagsstaða fyrirtækisins þeim meira svigrúm til að leika sér og gera verkefnin á eigin forsendum. „Við erum alltaf að vinna í einhverju nýju þannig áhorfendur eru ekki alveg lausir við okkur strax.“