Áformað er að taka til heildarendurskoðunar stefnu Stjórnarráðsins í upplýsinga- og samskiptamálum. Til að stýra þessari endurskoðun hefur Hrannar Pétursson, sem áður starfaði sem framkvæmdastjóri samskiptasviðs Vodafone, verið ráðinn til forsætisráðuneytisins í tvo mánuði.
Í frétt á vef stjórnarráðsins segir að við endurskoðunina verði horft til þess að almenningur, þar með talin fyrirtæki, stofnanir og aðrir lögaðilar, fái aðgengilegar og skýrar upplýsingar um réttindi sín og skyldur og njóti nauðsynlegra leiðbeininga. Um leið verði leitast við að auka gæði upplýsinga og efla samskipti við almenning með aukinni samvinnu, samhæfingu og skilvirkni innan Stjórnarráðsins.
Í því starfi verði horft til framsetningar upplýsinga á vef Stjórnarráðsins og einstakra ráðuneyta og fyrirkomulag almennrar upplýsingagjafar endurskoðað. Jafnframt verði horft til samfélagsmiðla og annara miðla sem gegna vaxandi hlutverki í upplýsingagjöf í dag. Sérstaklega verði reynt að ná betur til ungs fólks.