Fjárfestirinn og athafnamaðurinn Magnús Ármann sendi nýlega frá sér yfirlýsingu, undir yfirskriftinni „217 sinnum sekur?“ Í yfirlýsingunni rekur Magnús hvernig það kom til að hann fjárfesti í stórum hlut í Landsbanka Íslands skömmu fyrir hrun, sem var tilefni rannsóknar sérstaks saksóknara og mikillar umfjöllunar fjölmiðla. Í greininni segir svo:
„Nú hefur mér loksins borist bréf frá embætti sérstaks saksóknara, dagsett 9. febrúar 2011. Þar stendur orðrétt: „Hér með tilkynnist, með vísan í 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, að rannsókn málsins gagnvart Magnúsi Ármann hefur verið hætt.“ Rannsókn sérstaks saksóknara hefur semsagt leitt í ljós að ég aðhafðist ekkert ólöglegt við kaup Ímon á bréfum í Landsbankanum og ég er því ekki lengur grunaður um umboðssvik eða markaðsmisnotkun. Það eru ekki nýjar fréttir fyrir mig að ég sé saklaus en að sjálfsögðu er þungu fargi af mér létt. Ímon málið hefur valdið mér miklum skaða þar sem mér var ranglega stillt upp sem brotamanni en ekki tjónþola.“
Efnilegur skákmaður
Magnús, sem er fæddur árið 1974 og uppalinn í neðra Breiðholti, þótti á meðal efnilegustu skákmanna þjóðarinnar í æsku og tefldi fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum barna- og unglingamótum. Um tvítugt tók hann að stunda eigin viðskipti og stofnaði Pizza 67 á Egilsstöðum og nær ferill hans í viðskiptum því yfir meira en einn og hálfan áratug.
Í kjölfarið jók hann umsvif sín í veitingarekstri og kom að stofnun og rekstri veitingastaða á borð við Astro, Rex og TGI-Friday’s. Árið 2001 skipti hann þó alfarið um vettvang og hóf fjárfestingar í erlendum smásölu- og verslanafyrirtækjum. Ber þar hæst fjárfestingar í Karen Millen og Shoe Studio. Árið 2004 seldi Magnús hlut sinn í Karen Millen og árið eftir fjárfesti hann ásamt viðskiptafélögum sínum í FL Group. Árið 2006 sneri hann svo heim og fjárfesti m.a. í Byr sparisjóði, Teymi og 365. Skömmu fyrir hrun bankakerfisins haustið 2008 eignaðist hann hlut í Landsbankanum eins og fram kemur hér að framan.
Magnús býr nú í Lúxemborg og hefur stundað viðskipti tengd smásölu- og verslunarfyrirtækjum þar síðan 2009.
Ferill: Um Magnús
1995 Stofnaði Pizza 67 á Egilsstöðum.
1995-2001 Veitingarekstur í Reykjavík, m.a. Astro, Rex, TGI Friday’s og Hverfisbarinn.
2001-2006 Fjárfestingar í breskum smásölufyrirtækjum, m.a. Karen Millen og Shoe Studio.
2005-2008 Fjárfestingar á Íslandi,m.a. FL Group, Byr, Teymi, 365 og Landsbankinn.
2009 Verkefni tengd smásölu, með aðsetur í Lúxemborg.
2011 Hreinsaður af grun um markaðsmisnotkun vegna kaupa áhlutabréfum Landsbankans.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 24. febrúar sl.