„Fyrstu vikurnar hafa að miklu leyti snúist um að koma á fót nýjum skuldabréfasjóði hér hjá Akta, sjóðnum Akta VaxtaVeröld, sem fjárfestir bæði hérlendis sem og erlendis. Lágvaxtaumhverfið hefur skapað nýjar áskoranir fyrir sparifjáreigendur, en sem dæmi má nefna að raunávöxtun innstæðureikninga er í dag neikvæð og ólíklegt að það muni breytast á næstunni. Það var vilji af okkar hálfu til að bregðast við þessum breytta veruleika og á þessi sjóður að vera svar við þessum nýju áskorunum“ segir Rósa Kristinsdóttir sem ráðin hefur verið lögfræðingur og regluvörður Akta sjóða.

Rósa vann áður sem framkvæmdastjóri hjá lánasjóðnum Framtíðinni, sem var í eigu sjóðs í stýringu hjá Gamma, samhliða því að vinna á bankasviði Kviku og þar áður hjá Logos lögmannsþjónustu. „Á meðan ég var framkvæmdastjóri voru miklar breytingar hjá fyrirtækinu þegar Kvika tók yfir Gamma. Það var skemmtilegt en krefjandi að vinna að því að samtvinna Framtíðina inn í starfsemi Kviku, og mikill skóli að upplifa það hvernig það er að smella svona minni einingu inn í stærri einingu.

Rósa útskrifaðist með MSc. gráðu í lögfræði frá HR árið 2017. Hún segist hlakka til að auka við lögfræðina aftur eftir að hafa unnið í rekstri fyrirtækja undanfarin ár. „Þá sérstaklega í fjármálatengdri lögfræði, mér hefur alltaf þótt hún mjög áhugaverð og krefjandi. Þetta er síbreytilegt lagaumhverfi og mikið af Evrópulöggjöf sem er innleidd hér á Íslandi.“

Í frítíma sínum finnst Rósu fátt skemmtilegra en að elda og borða góðan mat. Hún reynir að samtvinna ferðalög sín við matarmenningu og nefnir þar sérstaklega matreiðslunámskeið sem hún sótti í Perú þar sem hún lærði að elda fiskréttinn ceviche og kjötréttinn lomo saltado.

Rósa hefur mjög gaman af líkamsrækt og hefur verið að undirbúa þátttöku í þríþraut frá því í nóvember á síðasta ári, upphaflega á Miami en eftir ferðatakmarkanir sökum Covid var ákveðið að taka slaginn á Laugavatni í lok júlí.

Hún segir að sambýlismaður hennar, Hersir Aron Ólafsson, hafi komið sér út í sjósund fyrir um tveimur og hálfu ári síðan. Sjósundið henti vel með annarri hreyfingu og þau fara nokkrum sinnum í viku. Að sögn Rósu, finnst Hersi fátt skemmtilegra en góðir nethrekkir, þar á meðal ýmsar stöðuuppfærslur á Facebook.

„Ein þeirra var að ég væri flutt til Katar að læra olíurétt. Ég er enn að lenda í því að fólk labbi upp að mér úti á götu og spyr hvernig var út í Katar. Óþægilegast var þegar ég var í skiptinámi í Hamborg og hann gerir status um að ég væri svo ofboðslega hrifinn af Þýskalandi að ég væri komin í varanlegt nám í Berlín. Ég fékk símtal frá yfirmanni mínum á þeim tíma að þetta væri ekki alveg í takt við þeirra plön. Pabbi hringdi líka í miklu áfalli því hann hafði búist við að ég myndi ræða við sig áður en ég flutti erlendis til margra ára.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .