Nýr innviðasjóður í stýringu hjá Kviku eignastýringu, fjármagnaður af lífeyrissjóðum og fleiri stofnanafjárfestum, mun ásamt Arion banka koma að fjármögnun kaupa bandaríska sjóðstýringafélagsins Digital Bridge á 367 sendastöðum af Sýn og Nova, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Vonast er til að ljúka vinnu við fjármögnun kaupanna fyrir jól.

Fjármögnun frá innviðasjóðnum verður í formi verðtryggðs fastvaxta skuldabréfaláns í krónum sem kemur á móti lánsfjármögnun Arion banka á sambærilegum kjörum samkvæmt heimildum blaðsins.

Jóakim stýrir Íslandsturnum

Dótturfélag Digital Bridge hér á landi sem heldur utan um kaupin hefur fengið nafnið Íslandsturnar hf. en Jóakim Reynisson verður framkvæmdastjóri félagsins. Jóakim er einn stofnenda Nova og var framkvæmdastjóri tæknimála Nova fram til ársins 2018. Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í febrúar hefur staðið til að um 8-9 milljarðar króna af um 13 milljarða króna kaupverði yrðu fjármagnaðir með lánsfé en fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hefur haft umsjón með fjármögnuninni.

Digital Bridge, sem leitt er af Marc Ganzi, er með um 5.000 milljarða króna eigna í stýringu. Félagið kaupir svokallaða óvirka innviði af Sýn og Nova, það er aðra hluti en tæknibúnað, til að mynda möstur, byggingar og girðingar. Tæknibúnaðurinn verður áfram í eigu Sýn og Nova en fjarskiptafélögin leigja óvirku innviðina aftur af Digital Bridge. Samkeppniseftirlitið samþykkti kaupin undir lok nóvember og er nú unnið að endanlegri afhendingu eigna.

Nánar er fjallað um Íslandsturna og innviðafjárfestingar lífeyrissjóða í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .