Valgil ehf., félag í 100% eigu Ægis Páls Friðbertssonar, keypti hlutabréf í Iceland Seafood International (ISI) fyrir 5,4 milljónir króna í morgun. Alls keypti hann 1 milljón hluti á genginu 5,35 krónur á hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Ægir Páll tók við starfi forstjóra ISI af Bjarna Ármannssyni í haust samhliða því að Bjarni seldi allan 10,8% eignarhlut sinn í félaginu til útgerðarfélagsins Brims fyrir 1,6 milljarða króna.

Ægir Páll kom til ISI frá Brimi þar sem hann hafði starfað sem framkvæmdastjóri Brims í fimm ár. Þar áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá Útgerðarfélagi Reykjavíkur í þrjú ár og þar áður sem framkvæmdastjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja í níu ár.

Iceland Seafood International birti ársuppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær. Samstæðan skilaði 60 milljóna króna hagnaði á fjórða ársfjórðungi 2023 eftir tæplega 3 milljarða króna tap á fyrstu níu mánuðum ársins sem rekja má að mestu leyti til breska félagsins Iceland Seafood UK, sem samstæðan seldi í september síðastliðnum.