Samkvæmt gagnagrunni Ríkissáttasemjara eru um 360 kjarasamningar gerðir hér á landi. 138 samningar eru útrunnir en til viðbótar renna 176 samningar út innan sex mánaða. Lengsti gildandi samningurinn í dag nær til ársins 2033, en um er að ræða kjarasamning við Sjómannasamband Íslands sem samþykktur var á dögunum.

Í um 98% tilfella var eldri samningur útrunninn þegar nýr tók við og hlutfall samninga sem vísað var til Ríkissáttasemjara var 80,1%, eða alls 290 samningar.

Eftir síðustu kjaralotu boðaði ráðherra frumvarp um auknar valdheimildir Ríkissáttasemjara, í ljósi stöðunnar með miðlunartillögu í síðustu kjaralotu, en það frumvarp er ekki á dagskrá Alþingis fyrr en í vor.

Fjögur heildarsamtök

Hvað kjarasamninga á almennum vinnumarkaði varðar er aðallega horft til stærstu heildarsamtaka stéttarfélaga, Alþýðusambands Íslands. ASÍ skiptist í fimm landssambönd með 44 aðildarfélög og er félagsfólk um 127 þúsund en þar af eru rúmlega 113 þúsund virk á vinnumarkaði. Stærstu samtök launagreiðenda eru Samtök atvinnulífsins, en þar undir falla sex aðildarfélög og samningar ná til um það bil 65% alls launafólks og 98% launafólks á almennum vinnumarkaði.

Heildarsamtök stéttarfélaga auk ASÍ eru Bandalag háskólamanna, BSRB og Kennarafélag Íslands en félagsmenn þeirra starfa aðallega hjá ríki eða sveitarfélögum. Utan SA eru helstu viðsemjendur stéttarfélaga fjármála- og efnahagsráðherra f.h. ríkissjóðs, Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg.

Nánar er farið yfir kjaramálin og þróun síðasta áratug í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið umfjöllunina í heild hér.