Maður sem tók um 39 milljónir króna út af kreditkortareikningi Magnúsar Ármanns athafnamanns var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag dæmdur í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til endurgreiðslu á 38 milljónum króna auk vaxta. Hann þarf að greiða Borgun féð sem hann tók út af reikningnum.
Upphæðirnar tók maðurinn, sem er á sextugsaldri, út af korti Magnúsar í 32 skipti á níu mánaða tímabili frá í janúar árið 2007 og nam hver færsla frá 5.000 krónum og upp í 1,6 milljónir.
Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn hafi komist yfir kortaupplýsingar Magnúsar á kampavínsklúbbnum Strawberries sem hann starfaði á. Hann hélt því fram að Magnús hafi veitt sér heimild til að taka fjórar milljónir króna út af reikningi hans í hverjum mánuði til styrktar reksturs meðferðarheimilis á Taílandi. Magnús gerði athugasemdir við færslurnar á sínum tíma enda kannaðist hann ekki við að hafa veitt heimild fyrir þeim. Dómurinn taldi röksemdir mannsins sem var dæmdur fjarstæðu.
Magnús gerði kröfu um tæplega 20 milljóna króna skaðabætur vegna málsins.