Þó skuldabréfaeigendur Wow air hafi samþykkt að breyta kröfum í hlutafé áður en Wow fór í gjaldþrot voru ekki allir sáttir við þá ákvörðun. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins snéri óánægjan ekki síst að fjármununum sem lagðir voru til félagsins í skuldabréfaútboðinu 18. september.

Samtals söfnuðust um 8 milljarðar króna og upphaflega áttu þeir að duga til að brúa reksturinn næstu 18 mánuði. Í lok nóvember birti Wow hins vegar tilkynningu þar sem fram kom að langtímafjármögnun væri ótrygg og félagið þyrfti nauðsynlega á auknu fé að halda. Heimildir blaðsins herma að á fundum hafi verið spurt út í þetta. Hvert þessir fjármunir hafi farið en fullnægjandi svör ekki fengist.

Á miðvikudaginn óskaði Viðskiptablaðið eftir viðtali við Skúla Mogensen en skilaboðin frá fjölmiðlafulltrúa Wow voru að vegna anna gæti hann ekki tekið símtal. Þá sendi Viðskiptablaðið eftirfarandi fyrirspurn á fjölmiðlafulltrúann: „Í skuldabréfaútboðinu í september lögðu fjárfestar 50 til 60 milljónir evra inn í Wow air . Wow air gaf sjálft út í nóvember að lausafjárstaða félagsins væri orðin þung. Í hvað fóru þessir fjármunir? Engin bárust við fyrirspurninni og sama morgun og blaðið kom út á fimmtudaginn varð Wow gjaldþrota.

Tungnaa og Sog

Samkvæmt loftfararskrá Samgöngustofu eru sjö flugvélar leigðar af félaginu Air Lease Corporation ( ALC ) í Bandaríkjunum og tvær af Jin Shan 20 á Írlandi. Þá er ein leigð af félaginu Tungnaa Aviation Leasing Limited og ein af Sog Aviation Leasing Limited en þessi fyrirtæki eru á Írlandi.

Air Lease Corporation var stofnað árið 2010 af bandaríska milljarðamæringnum Steven Ferencz Udvar-Házy . Hann er stjórnarformaður ALC og á lista Forbes yfir ríkustu menn heims.

Jin Shan , sem leigir Wow tvær Airbus-vélar, er skráð á Írlandi en móðurfélagið er kínverski bankinn Bank of Communications , sem er einn stærsti banki í heimi.

Félögin Tungnaa og Sog eru skráð á sama heimilisfang í Dublin á Írlandi og í eigu Sky Aviation Leasing International Limited á Cayman-eyjum í gegnum SKYFIN AIRCRAFT FINANCE III LIMITED , sem er skráð í Dublin á Írlandi. Nöfn félaganna eru skírskotun í íslenskar ár, Tungnaá og Sogið. Samkvæmt upplýsingum, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum voru félögin tvö stofnuð í september í fyrra, þegar skuldabréfaútboðið var við það að klárast. Þar sem móðurfélagið er skráð á Cayman-eyjum er erfitt að nálgast upplýsingar um eignarhaldið.

Eins og áður sagði þá sendi Viðskiptablaðið fyrirspurn til fjölmiðlafulltrúa Wow air á miðvikudaginn. Fyrri fyrirspurnin sneri að skuldabréfaútboðinu en sú seinni tengdist félögunum Tungnaa og Sog.

Spurt var: Hvert er eignarhaldið á þessum vélum og félögum? Tengist það á einhvern hátt stjórnendum Wow air ? Og ef svo er hverjum? Engin svör bárust við þessari fyrirspurn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .