LOGOS opnaði skrifstofu í Lundúnum árið 2006 og hafa fjölmargir lögmenn stofunnar starfað þar í gegnum árin. Þrátt fyrir að rekstur stofunnar í London hafi gengið vel í fyrra hefur LOGOS ákveðið að hætta með fasta starfstöð sína þar.
„Áður fyrr var verið að kalla okkur inn á fundi í Lundúnum í annarri hverri viku. Núna með Teams-væðingunni og annað þá eru boðleiðirnar orðnar styttri. Það er auðvitað lykilatriði fyrir okkur að halda áfram að rækta sambandið við þær lögmannsstofur sem við vinnum með úti í London,“ segir Benedikt Egill Árnason, framkvæmdastjóri og eigandi LOGOS,
Hann segir LOGOS ekki vera með neina Íslendinga fastráðna í Lundúnum núna en starfsmenn hafa verið að fara tímabundið út.
Tugir starfsmanna hafa farið út og starfað um tíma í Lundúnum frá opnun skrifstofunnar í Lundúnum en Benedikt útilokar ekki að starfsmenn muni halda því áfram og unnið þá á vinastofum LOGOS í borginni.
Benedikt segir að ákvörðunin hafi verið tekin í kjölfar stefnumótunar hjá stofunni.
„Við viljum skerpa fókus á það sem við erum best í, þ.e. að veita erlendum og innlendum viðskiptavinum okkar ráðgjöf um íslensk lög, og hætta að vera sjálf með ráðgjöf um ensk lög í gegnum enska lögmenn. En við munum áfram geta tengt okkar viðskiptavini við þá lögmenn í Englandi sem henta best hverju sinni. Það mun áfram eiga við um íslensk fyrirtæki í útrás og erlenda fjárfesta í leit að tækifærum á Íslandi. Það er einfaldlega ekki lengur sama þörf til staðar fyrir viðskiptavini okkar að við séum með fasta starfsstöð í London.“
Hagnaður af rekstri LOGOS lögmannstofu hátt í tvöfaldaðist á milli ára og nam 778 milljónum króna í fyrra samkvæmt ársreikningi. Um sögulega afkomu er að ræða en LOGOS hefur um áratugaskeið verið stærsta lögmannsstofan á Íslandi þegar kemur að markaðshlutdeild og veltu. Veltan jókst þó um hátt í milljarð milli áranna 2022 og 2023 og hefur því sérstaða LOGOS á íslenskum markaði aukist töluvert.
Hægt er að lesa viðtal Viðskiptablaðsins við Benedikt Egil í heild sinni hér.