Árið 2017 keypti ríkissjóður sumarbústað við Valhallarreit að ósk Þingvallanefndar sem til stóð að rífa. Samkvæmt áætlun átti að uppræta greniskóginn í kringum bústaðinn en skógurinn var talinn hafa slæm sjónræn áhrif.

Nokkrum árum seinna hafði nefndin skipt um skoðun og vildi gera bústaðinn að aðsetri fyrir listafólk og fræðimenn.

Vilhjálmur Árnason, formaður Þingvallanefndar, segir að það hafi í raun ekki verið bein áform nefndarinnar að rífa þennan ákveðna bústað, þrátt fyrir að bústaðir sem nefndin keypti voru gjarnan rifnir eða fjarlægðir.

„Húsið var svo heillegt og gott þegar nefndin fékk það í hendur að ákveðið var að nýta það á einhvern hátt. Hefur það verið nýtt undir viðbragðsaðila og hefur vísindafólk og fleiri fengið aðstöðu í húsnæðinu,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir að það hafi verið hugmyndir á flugi um að nýta bústaðinn fyrir skólahópa en nefndin fékk jafnframt góða aðstöðu til þess í nýrri byggingu á Hakinu eða viðbyggingunni við þjónustumiðstöðina.

Nánar er fjallað um áform Þingvallanefndar í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast þá umfjöllun í heild sinni hér.