OK, félag sem varð til við samruna upplýsingatæknifélaganna Opinna kerfa og Premis í byrjun síðasta árs, hefur fest kaup á upplýsingatæknihluta TRS ehf., sem staðsett er á Selfossi. Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er rætt við Gunnar Zoëga, forstjóra OK, um kaupin, samruna Opinna kerfa og Premis og ýmislegt fleira.

Spurður um hvort OK muni halda áfram að leita tækifæra til vaxtar í gegnum samruna og yfirtökur, segir Gunnar óhjákvæmilegt að það verði frekari samþjöppun á upplýsingatæknimarkaðnum og að einhver félög muni heyra sögunni til. „Þetta eru það mörg fyrirtæki, auk þess sem samkeppnin erlendis frá er veruleg. Ég hef mikla trú á OK og tel að fyrirtækið geti stækkað í gegnum innri vöxt. Við erum ekki með neina sérstaka stefnu um frekari yfirtökur. En ef við komum auga á tækifæri sem fellur vel að okkar starfsemi og bætir hag félagsins og viðskiptavina þess, þá skoðum við það að sjálfsögðu.“

Stefnir í betra ár en í fyrra

Á fyrsta starfsári sameinaðs félags velti OK rúmlega 5,5 milljörðum króna og hagnaðist um 53 milljónir. Framlegð nam tæplega 2,4 milljörðum króna. Gunnar kveðst sáttur með rekstrarniðurstöðu síðasta árs. Það stefni í að rekstur yfirstandandi árs verði enn betri.

„Þetta er búið að vera frábært ár, þrátt fyrir krefjandi ytri aðstæður á borð við verðbólgu og hátt vaxtastig. Við höfum átt í töluverðum innri fjárfestingum á árinu, sennilega stærstu fjárfestingum í sögu félagsins og forvera þess. Það var líka ánægjuleg viðurkenning frá Creditinfo að vera framúrskarandi með reksturinn okkar.  Það stefnir í að við munum auka veltu og skila betri afkomu í ár heldur en í fyrra. Rekstur síðasta árs gekk heilt yfir vel og því ánægjulegt að það sé útlit fyrir að yfirstandandi ár verði enn betra.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.