Kaupverðið sem suður-kóreska leikjafyrirtækið Pearl Abyss greiðir fyrir CCP lækkar um 47% frá því sem það gat mest numið — úr 425 milljónum dollara, jafnvirði ríflega 54 milljarða króna, í 225 milljónir dollara, tæplega 29 milljarða króna. Ástæðan er að árangurstengd viðmið í rekstrinum gengu ekki eftir. Pearl Abyss keypti CCP árið 2018 og voru 225 milljónir dollara greiddar út strax en 200 milljónir dollara voru skilyrtar við afkomu CCP árin 2019 og 2020, 100 milljónir dollara vegna hvors árs fyrir sig.

Ákveðið var að skilyrða kaupverið að hluta, meðal annars þar sem ólíkar skoðanir voru milli stjórnenda Pearl Abyss og eigenda CCP um hve hratt hægt væri að fara í útgáfu EVE Online í Kína og gefa út farsímaleikinn EVE Echoes. Leyfi fyrir tölvuútgáfu EVE Online í Kína fékkst síðasta sumar og Eve Echoes kom út á heimsvísu í ágúst í fyrra. Þá fékk EVE Echoes útgáfuleyfi í Kína fyrr í febrúarmánuði. Ástæða tafanna var meðal annars að CCP skipti um samstarfsaðila í Kína sem þýddi að sækja þurfti um nýtt leyfi fyrir leikinn og að kínversk yfirvöld gáfu ekki út nein ný leikjaleyfi í tæp tvö ár.

„Það hefði augljóslega verið frábært að ná þessu. Leyfin, sem eru forsenda þess að geta starfað á Kínamarkaði, drógust mun meira en nokkur átti von á. En við náðum því að lokum sem er það ánægjulega,“ segir Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP í Viðskiptablaðinu í dag.

Stærsti hluthafi CCP við söluna 2018 var Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, og tengdir aðilar sem áttu 43,4% hlut að því er fram kom í frétt Morgunblaðsins árið 2018. Novator og tendir aðilar fengu þá 12,5 milljarða króna miðað við núverandi gengi krónunnar, en gátu mest fengið ríflega 11 milljarða króna til viðbótar sem ljóst er að ekki verður af. Hilmar átti 6,5% hlut og fékk um 1,9 milljarða króna miðað við núverandi gengi og gat mest vænst til að fá nærri 1,7 milljarða króna til viðbótar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .