Magnús Harðar­son, for­stjóri Kaup­hallarinnar, er þokka­lega bjart­sýnn á skráningar í Kaup­höllina í ár þrátt fyrir að selj­endur hluta­bréfa í al­mennu hluta­fjár­út­boði Ís­lands­hótela á­kváðu í gær­kvöldi hefðu ákveðið að falla frá út­boðinu og þar með skráningu fé­lagsins á Aðal­markað.

„Við í Kaup­höllinni höfum vonast til að auka veg ferða­þjónustunnar í Kaup­höllinni og auka mögu­leika til fjár­festinga í þessari stærstu út­flutnings­grein þjóðarinnar. Það var því til­hlökkunar­efni að fá Ís­lands­hótel í Kaup­höllina, sem glæsi­legan full­trúa ferða­þjónustunnar,“ segir Magnús í sam­tali við Við­skipta­blaðið.

Samkvæmt tilkynningu Íslandshótela í gærkvöldi tóku vel á þriðja þúsund aðilar þátt í útboðinu sem skráðu sig fyrir hlutum að verðmæti ríflega 8 milljarða króna.

„Það fékkst þó ekki áskrift í útboðinu fyrir öllum boðnum hlutum og því hafa seljendur ákveðið að falla frá útboðinu,“ segir í tilkynningu Íslandshótela.

Félagið setti á sölu 41,7% af útgefnu hlutafé Íslandshótela. Ef full áskrift hefði fengist í útboðinu hefði heildarsöluandvirði verið um tæplega 12,9 milljarðar króna.

„Okkar sýn er á­fram að Ís­lands­hótel og fleiri fé­lög í ferða­þjónustu eigi fullt erindi í Kaup­höllina og hafi mikið gagn af skráningu. Á­hrifin eru þannig fyrst og fremst að tefja eitt­hvað upp­byggingu ferða­þjónustunnar á markaði. Við fengum þó þær upp­lýsingar úr þessu út­boði að ekki vantaði á­huga al­mennings, þar sem á­skriftir voru hátt í þrjú þúsund,“ segir Magnús.

Davíð Torfi Ólafs­son, for­stjóri Ís­lands­hótela, sagði fyrr í dag að erfiðar markaðs­að­stæður væru „lang­stærsta“ á­stæðan fyrir því að ekki fékkst full eftir­spurn í hluta­fjár­út­boði hótel­keðjunnar.

Fag­fjár­festar hafi ekki tekið jafn mikinn þátt og vonast var eftir. „Markaðir eru bara mjög erfiðir,“ sagði Davíð Torfi í sam­tali við Við­skipta­blaðið í há­deginu.

„Við fundum fyrir miklum á­huga á fé­laginu og miklum á­huga frá al­menningi. Allt ferlið gekk mjög vel. Svo er það bara þannig, eins og við vissum, að markaðir eru búnir að vera erfiðir. Við vildum samt láta reyna á þetta en þetta gekk ekki eftir,“ bætti hann við.

Fjárfestaáhugi kemur venjulega fyrr fram

Að­spurður segir Magnús að hann reki ekki minni til þess að hætt hafi verið við skráningu með þessum hætti.

„Venju­lega kemur það fram fyrr í ferlinu ef fjár­festa­á­hugi er ekki í takt við það sem vonast var eftir,“ segir Magnús.

Hann er þó engu að síður bjart­sýnn á fram­haldið.

„Við erum þokka­lega bjart­sýn fyrir árið. Undir­liggjandi á­hugi á skráningu er mikill og fé­lög sem við erum í sam­tali við munu örugg­lega fylgjast vel með markaðs­að­stæðum. Það má samt ekki gleyma því að „markaðs­að­stæður“ eru marg­slungið fyrir­bæri, geta t. d. verið mis­munandi eftir greinum á mis­munandi tímum,“ segir Magnús.

Máli sínu til stuðnings bendir hann á skráningu og hluta­fjár­aukningu Ocu­lis í síðasta mánuði.

„Við sjáum t. d. vel heppnaða fjár­mögnun Ocu­lis í að­draganda skráningar fyrir réttum mánuði. Það sem liggur fyrir núna er skráning Ice Fish Farm síðar í þessum mánuði og svo er gert ráð fyrir flutningi Play á Aðal­markaðinn innan skamms. Að því sögðu þá vonum við að Ís­lands­hótel sjái sér hag í skráningu við betra tæki­færi,“ segir Magnús.