Beiðni barst frá Ástralíu um að Eurovision skuli haldið hér á landi fari það svo að Ástralía vinni keppnina einhverntíman. Kostnaður sem myndi falla á Ísland væri um 300 milljónir króna.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í fundargerðum stjórnar RÚV, frá fundum ársins 2018 til júlí 2019, sem Viðskiptablaðið fékk nýverið afhent. Rétt er að geta þess að RÚV sinnti því illa að svara beiðni blaðsins og fór það svo að félagið fékk ekki að taka afstöðu til upplýsingabeiðnarinnar heldur kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp efnisúrskurð á grunni nýrrar lagaheimildar þess efnis. Er þetta í fyrsta sinn sem ákvæðið er nýtt. Lögfræðikostnaður RÚV við andmæli fyrir nefndinni kostaði félagið rúmlega hálfa milljón króna.

Meðal þess sem nokkuð var rætt innan stjórnar var þátttaka Íslands í Eurovision árið 2019. Sem kunnugt er fór listgjörningahópurinn Hatari fyrir Íslands hönd til Tel Aviv í Ísrel en ekki var einhugur um það innan stjórnar hvort RÚV ætti að taka þátt eður ei. Stjórnarmenn hafa einnig talsverðar skoðanir á því hvort lög í undankeppninni hér heima skuli flutt á íslensku eða ensku.

Beiðni Ástrala um að halda keppnina hér á landi, fari það svo að Ástralía vinni einhvern tímann, rataði einnig á borð stjórnar strax í maí 2018. Bæði hefur verið rætt við borgarstjóra og ráðherra málaflokksins og voru þau jákvæð í garð hugmyndarinnar. Ástralir myndu bera fjárhagslega ábyrgð á keppninni en gert er ráð fyrir fjárhagslegri skuldbindingu frá Íslandi að fjárhæð 2 milljónir evra, ríflega 300 milljónir króna á gengi dagsins. Útvarpsstjóra var falið að vinna að gerð samkomulags vegna þessa.

Nánar er fjallað um fundargerðir stjórnar RÚV í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Ný sælkeraverslun opnar dyr sínar fyrir gestum og gangandi á morgun
  • Fjallað er um kaflaskil hjá Högum með nýjum forstjóra
  • Framkvæmdastjóri íslenska fjártæknifyrirtækisins Monerium, sem heimfærir hefðbundna gjaldmiðla yfir á bálkakeðju, trúir að bálkakeðjur muni gjörbylta fjármálageiranum
  • Úttekt á fyrsta ársfjórðungsuppgjörum bankanna
  • Umfjöllun um nýjan skiptimarkað með rafmyntir, sem opnaður var á dögunum
  • Nýr fjármálastjóri AwareGo segir frá draumnum um að komast í starfið og fjölskylduhefðinni sem varð innblástur að verðlaunamynd
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs
  • Óðinn skrifar um kjaraviðræður Icelandair við flugmenn, flugfreyjur og -þjóna