Maðurinn sem hefur verið ákærður fyrir að svíkja um 40 milljónir af kreditkorti Magnúsar Ármann segist hafa haft leyfi fyrir úttektunum vegna samnings við Magnús á Strawberries sem kvað á um ótakmarkaðan styrk fyrir meðferðarmiðstöð í Taílandi. Magnús sjálfur segist ekkert kannast við umræddan samning og segir hann falsaðan. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins um málið í dag.
Í ákæru kemur fram að maðurinn tók tæpar 40 milljónir út af kreditkortinu í 32 færslum árið 2007. Magnús Ármann varð ekki var við neitt fyrr en um haustið og lét þá bakfæra stóran hluta þannig að 28 milljónir af tjóninu lentu á Borgun en afgangurinn á honum sjálfum.
„Ég hafði ekki áhyggjur sem slíkar af þessu korti,“ sagði Magnús fyrir dómnum í gær þegar hann var spurður hvers vegna hann hefði ekki tekið eftir því að fjórar milljónir króna hefðu verið skuldafærðar á hann mánaðarlega. Samkvæmt Magnúsi áttu mistök sér stað hjá Landsbankanum í Lúxemborg sem hefði átt að fylgjast betur með hans málum.
„Þetta var bara sjokk,“ sagði Magnús fyrir dómi um það þegar hann uppgötvaði allt færslurnar. Sækjandi fer fram á eins og hálfs árs fangelsi í málinu.
Lögreglustjóri blandast inn í málið
Eftir að málið komst upp segir Magnús að hann hafi fengið tölvupóst frá ákærða sem innihélt „ævintýralegar yfirlýsingar“ sem væru lítt dulbúnar hótanir um að hann yrði bendlaður við ýmislegt vafasamt. Þá sagði ákærði að hann ætlaði að fá lögreglustjórann Jóhann R. Benediktsson sem þá var lögreglustjóri á Suðurnesjum, með sér til verksins.
Magnús hafði í kjölfarið samband við Jóhann sem talaði við ákærða og fékk hann til að játa á sig sök í tölvupósti til Magnúsar. Hinn ákærði hefur síðan sagt þá játningu marklausa og dregið hana tilbaka.