Samanlagður hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, hefur ekki verið meiri á einum fjórðungi eða tólf mánaða tímabili frá árinu 2016. Hagnaður bankanna þriggja nam samanlagt 19,7 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi og 67 milljörðum króna undanfarið ár. Þá nam meðalarðsemi bankanna  á fjórðungnum 12,5% sem er það mesta frá árinu 2016 og náðu bankarnir þrír allir 10% arðsemismarkmiði sínu.

Að hluta má skýra afkomuna með því að áhrif faraldursins hafa verið minni en búist var við og því færðu bankarnir upp lánasafnið eftir varúðarniðurfærslur við upphaf faraldursins. Bankarnir njóta einnig góðs af töluverðum vexti í útlánum til einstaklinga vegna fasteignakaupa og uppgangi á fjármálamörkuðum.

Mikill útlánavöxtur

Þrátt fyrir vaxtalækkanir er ekki að sjá að vaxtamunur bankanna hafi breyst að ráði og nam hann 2,9% hjá Arion banka á fjórðungnum en var 2,5% hjá Landsbankanum og 2,4% hjá Íslandsbanka. Í fundargerð fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans frá 28.-29. júní sem birt var í vikunni er bent á að útlánavöxtur bankanna hafi að stórum hluta verið fjármagnaður með auknum innlánum. Slík fjármögnun er bönkunum alla jafna hagstæð. Hætta sé þó á því að viðsnúningur verði hvað varðar innlánin samhliða uppgangi í efnahagslífinu.

Samkvæmt hagtölum Seðlabankans hafa heildarútlán innlánsstofnana til heimila aukist um 41% frá ársbyrjun 2020 og fram á mitt þetta ár úr 1.183 milljörðum í 1.674 milljarða króna á meðan útlán til fyrirtækja hafa svo gott sem staðið í stað. Bönkunum hefur þannig tekist að auka markaðshlutdeild sína á lánum til einstaklinga á fasteignamarkaði töluvert á meðan lífeyrissjóðir hafa hægt á slíkum útlánum.

Góður gangur á fjármálamörkuðum að undanförnu með skráningum, hlutafjárútboðum, hækkun hlutabréfaverðs og innflæði í fjárfestingarsjóði kemur bönkunum  til góða. Þannig jukust hreinar þjónustutekjur bankanna samanlagt um fimmtung á fjórðungnum miðað við sama tímabil fyrir ári, eða í kringum 2,5 milljarða króna.

Faraldurinn enn stærsti áhættuþátturinn

Uppfærsla á lánasafninu skýrir þó að verulegu leyti bætta afkomu. Skýringin er minni áhrif heimsaldursins á lánþega en búist var við fyrir ári. Hreinar virðisbreytingar bankanna síðustu 12 mánuði voru samanlagt jákvæðar um 2,5 milljarða króna en voru neikvæðar um hátt í 26 milljarða króna tólf mánuðina þar á undan.

Þó er ekki útséð með hvert endanlegt virði útlána til félaga í rekstrarvanda vegna faraldursins verður. Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans taldi í lok júní að slík lán væru enn stærsta einstaka áhættan í efnahagsreikningum bankanna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .