Margrét Sanders sem verið hefur formaður Samtaka verslunar og þjónustu frá árinu 2014 er ánægð með árangurinn í starfinu á nokkrum sviðum, þá sérstaklega í menntamálum starfsmanna. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um nefndi hún einnig afnám tolla og vörugjalda sem hafi verið stórt skref til að opna landið fyrir fleiri verslunarfyrirtækjum og undirbúa verslunina undir aukna samkeppni.

Margrét nefnir í þessu samhengi að mikilvægt sé að meta reynslu þeirra sem lengi hafi starfað í verslun sem ígildi náms, en einnig að í framhaldsskólum sé hægt að velja námsbrautir sem einblíni á verslun og þjónustu sem taki þá stafræna þáttinn inn í námið.

„Það er gríðarlegur fjöldi á Íslandi sem starfar í þessari atvinnugrein og hefur virkilega ánægju af því og er að gera frábæra hluti. Nú erum við í samráði við VR og Verslunarskóla Íslands að byggja upp námsbraut til stúdentsprófs sem og fyrir starfsnám í verslunarstörfum, sem ætti að gera okkur betur kleift að mæta breytingum í verslun á næstu árum,“ segir Margrét.

„Gamli tíminn var að fólk fór og tók verslunarpróf, þar sem var bókfærsla og slíkt, en nú eru komin inn í þetta önnur fög, sem gengur út í að hugsa þjónustuna við viðskiptavinina alla leið, og allan reksturinn, út frá tæknibreytingunum og nýta sér þær. Námsbrautin til stúdentsprófs byrjar í haust í Verzló, en vandamálið er að ungt fólk upplifir oft þrýsting á að verða stúdentar, kannski frá foreldrum, eða vera í fögum sem henta ekkert alltaf öllum. Það þurfa ekkert allir að vera sprenglærðir í öllu, og innan verslunargeirans, eins og í öllum stéttum eru mjög mismunandi og góð störf.“

Þannig megi búast við því að með menntaðra starfsfólki verði meiri sérfræðiþekking til staðar í verslununum. „Tæknin gerir það auðveldara að vera með persónulega þjónustu. Verslunarfólk mun læra í auknum mæli hvernig það eigi að ná til okkar sem kaupenda beint. Hérna áður fyrr var verið að skipta fólki gróflega upp í hópa, eftir því hvort það sé ungt, miðaldra eða gamall, kona eða karl en ef þú lítur í eigin barm og hugsar um þinn aldur og þitt áhugasvið, og svo horfirðu á aðra karlmenn í kringum þig, þá er ekkert sem segir að þið séuð allir með sama áhugamálið og mynduð kaupa það sama,“ segir Margrét.

„Ég get nefnt sem dæmi að ef kona á von á barni þá fer hún að skoða hluti tengt því á netinu, kannski að panta sér föt fyrir ófrískar konur, eða jafnvel lyf við ógleði, ef við byrjum alveg á fyrstu mánuðunum. Við það þá fer hellingur af stað svo síðar getur hún fengið upp hjá sér boð um föt fyrir nýfædda, vöggur og svo framvegis. Þannig getur fólk fengið persónulegri þjónustu sem einblínir á þeirra þarfir án alls ruglsins sem er í boði þarna úti, því það vill fá þörfum sínum mætt hratt og nákvæmlega það sem hentar því.“

Margrét segir að auðvitað þurfi að hyggja að persónuverndarsjónarmiðum í þessum efnum, en margir séu eflaust eins og hún og vilji ekki þurfa að vaða í gegnum mikið upplýsingaflæði í leit að því sem henti henni. „Verslunarfólk mun verða í auknum mæli þetta lím milli tækninnar og neytendans. Misskilningurinn er að þetta þurfi allt að vera tölvu- og tæknifólk sem stýrir þessum kerfum, en menn hafa verið að rugla saman tækninni sjálfri og að nýta sér tæknina. Við erum að segja við verslunarfólk að láta tæknifólkið vera gott í tækninni, en einbeitið ykkur að því sem skiptir ykkur máli, því tæknin á að vera stuðningur við ykkar starf,“ segir Margrét.

„Það þarf til dæmis ekki hver einasta verslun á Laugaveginum að búa til sitt eigið kerfi í kringum netverslun, eða „omnichannel“ eða hvað þeir eru að gera. Ég nefni oft Spán sem dæmi, þar voru mjög snemma komnir ákveðnir aðilar sem settu upp netverslanir sem verslanirnar gátu sig síðan keypt sig inn í. Það geta ekki allir keppt við stóru risana sem gera allt sjálfir á þeirra forsendum, en við getum gert það svona, þannig að við getum aukið þjónustuna við okkar viðskiptavini beint. Sem dæmi ef þú ferð á netið og ætlar að skoða rakspíra, og svo viltu prófa hann, þá getur Amazon sagt þér á korti hvar þú getur farið og prófað vöruna, því þeir vita nákvæmlega hvað þú vilt. Svona tækni verðum við að geta nýtt okkur fyrir íslenskar verslanir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .