„Síðan við öðluðumst sjálfstæði frá Spáni höfum við haft hvern einræðisherrann á eftir öðrum, því sá hugsunarháttur virðist vera ríkjandi að einungis forsetinn eða einræðisherrann skipti máli.

Jafnvel þó að lýðræði hafi nú tekið við, þá heldur fólk enn að forsetinn sé mikilvægastur af öllum þeim öflum sem eru í þjóðfélaginu,“ segir Gloria Álvarez, sem er þekkt útvarpskona og baráttumaður gegn sósíalisma í heimalandi sínu, Gvatemala.

„Raunin er hins vegar sú að það sem ætti að skipta mestu máli er að lögum og reglu sé viðhaldið, og að valdastofnanir haldi sig innan valdheimilda sinna.

Því ef valdaelítan er hafin yfir lögin, þá mun almúginn á endanum rísa upp og, líkt og hefur gerst svo oft í gegnum söguna, styðja við öfgaöfl þar sem einhver brjálæðingur þykist geta leyst öll vandamálin en fólk fylgir honum því það er orðið leitt á því sem er fyrir.“

Gloria Álvarez sagði frá stöðunni í Suður-Ameríku, þar sem popúlískir leiðtogar hafa löngum verið mjög áberandi, á ráðstefnu sem Samtök frjálslyndra framhaldsskólanema, Austurríska hagfræðimiðstöðin í Vín og Rannsóknasetur um nýsköpun og hagvöxt héldu um síðustu helgi í Háskólanum í Reykjavík.

Sömu grunneinkenni

Álvarez segir popúlíska leiðtoga hafa ákveðna hluti sameiginlega, hvort sem þeir séu af hægri eða vinstri væng stjórnmálanna.

„Popúlismi er ekki hugmyndafræði, né í raun stjórnunarstefna, heldur er um kerfislæg vélabrögð að ræða þar sem sálfræðileg tæki eru notuð til að hafa áhrif á almúgann. Til að selja þeim lausnir sem ekki eru sjálfbærar til lengri tíma eða fylgja hagfræðilegum lögmálum eða á annan hátt draga lærdóm af sögunni,“ segir Álvarez.

„Ríkið verður álitið uppspretta allra auðæfa, þannig að hægt sé að fá eitthvað ókeypis eins og enginn skortur sé til staðar. Þetta sjáum við til dæmis í Venesúela, þar sem þeir hafa algerlega eyðilagt framleiðni í landinu. Í fyrstu kaus fólkið þessa leiðtoga, en nú eru handtökur og hótanir í gangi gagnvart öllum sem standa gegn stjórnvöldum.“

Álvarez segir muninn á popúlistum dagsins í dag í Suður-Ameríku og einræðisherrum fyrri ára vera þann að þeir séu í dag oftar kosnir til valda í lýðræð- islegum kosningum í stað þess að komast til valda eftir áralangan skæruliðahernað.

„Í kjölfar hruns Sovétríkjanna þá gátu sósíalistar og stjórnmálaöfl sem vildu koma á kommúnisma ekki lengur treyst á fjárstuðning þaðan svo þeir urðu að breyta um aðferðafræði,“ segir Álvarez, en báðir afar hennar þurftu að flýja kommúnisma, annars vegar frá Kúbu og hins vegar frá Ungverjalandi.

„Popúlistarnir gerðu það með því að kalla þetta sósíalisma 21. aldarinnar, og nýttu þeir lýðræðið til þess að taka völdin en síðan tóku þeir sig til og grófu smátt og smátt undan öllum sjálfstæðum stofnunum í landinu.

Þeir breyta stjórnarskránni, þeir tryggja að hægt sé að kjósa þá aftur út í það óendanlega, og síðan beina þeir sjónum sínum að löggjafarvaldinu. Þeir breyta eðli þingræðisins þannig að þingmenn verða meira eins og hirð í kringum valdhafann í stað þess að verða fulltrúar þeirra borgara sem kjósa þá.

Síðan grafa þeir undan sjálfstæði dómstólanna því þeir vilja ekki verða dæmdir fyrir spillingu, og nýta þá til að ráðast á þá sem standa gegn stjórnvöldum.

Þeir hefja ofsóknir á hendur fjölmiðlum, stýra verkalýðsfélögum, loka sjálfstæðum hópum í háskólum meðan þeir beina sjónum almennings að einhverjum hópi óvina sem getur tekið á sig ýmsar myndir.“

Vítahringur popúlismans

Álvarez setti upp í fyrirlestri sínum það sem hún kallaði vítahring popúlismans sem og hugmyndir sínar um hvernig hægt væri að brjóta hann upp.

„Það verður að horfa á þau djúpstæðu sálfræðilegu áhrif sem verða eftir í huga fólks jafnvel löngu eftir að sósíalíska stjórnin er farin frá, því það er ekki nóg að breyta einungis um forseta og trúa því svo að kerfið breytist eins og fyrir kraftaverk.“

Álvarez talaði einnig um þann mikla skaða sem hægrisinnaðir forsetar og einræðisherrar hafa valdið í Suður-Ameríku með því að nota orðfæri kapítalismans en í raun fyrst og fremst hyglað eigin vinum og stuðningsmönnum.

„Fórnarlambamenningin leiðir til popúlisma, því að ef fólki er kennt að það geti ekki staðið á eigin fótum heldur þurfi leiðtoga sem sjái um þarfir þess, er auðveldara að stýra fólkinu og kaupa atkvæði þess.

Grunnurinn að þessu öllu er að fólkinu er kennt að það sé fórnarlömb, hvort sem það eru Bandaríkjamanna, spænsku nýlenduherranna, elítunnar sem sé við völd hverju sinni, eða eins og Trump og sumir hópar í Evrópu sem kenna innflytjendum um allt. Þjóðfélag þar sem hatur ríkir er veikt þjóð- félag.“

Álvarez segir að vandinn liggi fyrst og fremst í því að fólk treysti hinu opinbera fyrir allri menntun sinni og uppfræðslu, sem og menntun barna sinna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .