„Það hefur ekkert breyst í því hvernig við horfum á málið,“ segir Davíð Rúdólfsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, aðspurður um ástæðu þess að 18 af 21 lífeyrissjóði landsins hafa loks samþykkt að hefja formlegar viðræður við fjármála- og efnahagsráðuneytið um uppgjör á skuldum ÍL-sjóðs til þess að hægt verði að slíta honum.

„Ólíkt því sem hefur verið fram til þessa var það okkar mat núna að það væri tilefni til að eiga alvöru samtal um þessi mál,“ segir Davíð, en sjóðirnir hafa ekki verið tilbúnir til að hefja formlegar samningaviðræður fram til þessa þótt einhverjar þreifingar hafi átt sér stað.

„Við höfum bara metið stöðuna þannig að það hafi ekki verið tilefni eða forsendur til að gera það. Það hefur einfaldlega verið það langt á milli aðila.“

Nú sé það mat hins vegar breytt, þótt ekki hafi verið einhugur um það meðal sjóðanna enda tveir stærstu lífeyrissjóðir landsins, LSR og LIVE, ekki aðilar að viðræðunum. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur sá fyrrnefndi þó ekki tekið endanlega ákvörðun í málinu.

„Við teljum að það séu mögulega forsendur til þess núna að láta á það reyna hvort það sé hægt að ná saman um þetta mál. Þetta er það stórt mál að það er að minnsta kosti þess virði að gefa því tækifæri með formlegum hætti. Hvort eitthvað og þá hvað kemur út úr því verður að koma í ljós. Nú reynir á samningsvilja ríkisins.“