Bændahjón á Suðurlandi stofnuðu nýlega smáspunaverksmiðjuna Uppspuna. Auk þess að bjóða upp á garn beint frá býli eða úr eigin ull, er vinnslan án allra eiturefna, og hægt er að fá garnið aðskilið í þel og tog.

Við Þjórsárbrú, mitt á milli Selfoss og Hellu, má finna smáspunaverksmiðjuna Uppspuna, sem opnaði formlega í mars í fyrra í nýju húsnæði. Þar á undan hafði hún verið starfandi óformlega sem stök hilla, sem oftast var tóm vegna mikillar eftirspurnar, frá sumrinu á undan.

„Við höfðum ekki undan að framleiða, en við þurftum að smíða aðeins og breyta til að koma upp þeirri aðstöðu sem við vildum,“ segir Hulda Brynjólfsdóttir, en hún og eiginmaður hennar, Tyrfingur Sveinsson, eru bændur, og reka smáverksmiðjuna saman. Húsið er 100 fermetrar, og hýsir allar 11 vélarnar sem notaðar eru við vinnsluna.

„Þær sjá um þetta frá upphafi til enda. Þvo, kemba, skilja, spinna, tvinna og ganga frá. Allt sem þarf að gera til að búa til garn. Fólk kemur og fær smá sýnishorn, skoðar verksmiðjuna, og getur síðan keypt sér eitthvað.“

Auk þess að gera aðstöðuna tilbúna fór undirbúningstíminn í að læra á vélarnar og þróa þær vörur sem boðið er upp á. Í dag eru þau með fjórar tegundir af garni, auk ýmissa aukavara, sem ýmist eru úr ull, eða tengjast kindum á annan hátt.

Sérstaðan þríþætt

Sérstaða Uppspuna felst þó í meiru en bara smæðinni. „Við erum að búa til okkar eigin garn úr íslenskri ull, af okkar kindum og kindum nágranna okkar. Við notum ekki kemísk efni og við erum með hreina íslenska ull, við blöndum engu saman við hana,“ segir Hulda.

Hjónin eru einnig með svokallaða hárskilju; vél sem skilur grófustu ullina frá, sem hefur þau áhrif að garnið er mýkra, en smæð og gæði vélanna stuðla ennfrekar að mýkt garnsins. Meðal þess sem Uppspuni býður uppá er að láta vinna sína eigin ull.

„Við bjóðum fólki að koma með ullina sína og við spinnum fyrir það, þannig að það fái garn af sínum kindum til baka. Það er mjög mikið að gera í því, það er mjög vinsælt. Bæði fólk sem er að selja beint frá býli og eins bara fólk sem á kannski 2-3 kindur og vill prjóna af þeim,“ segir Hulda, en slíkt er nýjung hér á landi, að minnsta kosti á þessum skala.

„Þeir eru með það stórar vélar þarna í Istex að ef þú vilt fá þína eigin ull þá þarftu að koma með 250 kíló í einum lit, sem er ekki alveg á færi allra,“ segir hún kímin. Önnur nýjung er vinnsla geitagarns, sem ekki hefur verið möguleg hér á landi áður. „Við getum unnið kasmír-garn úr geitafiðu, en það hefur ekki verið hægt áður, vegna þess að það er svo lítið til af geitum á Íslandi að hráefnið hefur verið af skornum skammti.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

 • Umfjöllun um stöðu kjaramála.
 • Fjárfesting Indigo Partners í Wow air.
 • Áhrif upptöku veggjalda á uppbyggingu samgöngukerfisins.
 • Mat fulltrúa eins elsta eignarstýringarfyrirtækis heims á tækifærum á skuldabréfamarkaði.
 • Úttekt á gengi félaganna í Kauphöllinni.
 • Röksemdarfærsla fjármálaráðherra fyrir stofnun Þjóðarsjóðs.
 • Páll Harðarsson, forstjóri Kauphallarinnar, er í ítarlegu viðtali.
 • Umfjöllun um lokunanir á bandarískum alríkisstofnunum.
 • Gönguapp sem tekur þátt í ferðaþjónusthraðlinum.
 • Óðinn skrifar um metframúrkeyrslu borgarinnar.
 • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um Braggann