Lyfja hf. og Lyf og heilsa hf. eru stærstu apótekskeðjurnar hér á landi. Velta Lyfju hf. nam 15 milljörðum króna á síðasta ári, en hún hefur aukist um rúmlega 40% á síðustu fjórum árum. Þá hagnaðist Lyfja um 446 milljónir króna í fyrra sem gerir um 3% framlegð í rekstri. Lyfja mun brátt heyra undir samstæðu Festi, með fyrirvara um samþykki SKE.

Lyf og heilsa, sem rekur fjölda apóteka undir merkjum Apótekarans og Lyfjar og heilsu. fylgir fast á hæla Lyfju með 11 milljarða króna veltu á síðasta ári. Hagnaður félagsins nam 537 milljónum króna á síðasta ári.

Þriðji stærsti lyfsalinn hér á landi er Lyfjaver, en apótekskeðjan var með rúmlega 3,5 milljarða króna veltu á síðasta ári, en lyfsalinn skilaði hins vegar á sama tíma 40 milljón króna tapi í rekstri.

Samanlögð velta fimm stærstu lyfsalanna, Lyfju, Lyfjar og heilsu, Lyfjavers, Lyfjavals og Akureyrarapóteks, nam 29 milljörðum króna á síðasta ári. Það er um 89% af samanlagðri veltu lyfsala á lista Frjálsrar verslunar. Þá nam hagnaður stærstu fimm lyfsalana 1,2 milljörðum króna sem er 95% af samanlögðum hagnaði lyfsalanna á listanum.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 500 stærstu sem kom út sl. miðvikudag, 6. desember. Hægt er að kaupa bókina hér.