Íslendingar eru meðal þeirra þjóða í heiminum sem treysta hvað mest á sjávarútveg. Hann er einn mikilvægasti grunnatvinnuvegur þjóðarinnar og gegnir lykilhlutverki í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Því er eðlilegt að málefni sjávarútvegs beri oft á góma á vettvangi stjórnmála, í þjóðfélagsumræðunni almennt og að skoðanir um hann séu skiptar.

Því miður er allt of oft horft fram hjá því sem mestu máli skiptir; samkeppnisumhverfi greinarinnar. Sé það haft að leiðarljósi, þá fyrst er hægt að hefja samtal um hvernig íslenskur sjávarútvegur stendur sig. Það verður að hafa heildarmyndina í huga.

Seint talin til risa

Umræða um að sum sjávarútvegsfyrirtæki hér á landi séu orðin allt of stór, og að það hamli samkeppni, er til að mynda á villigötum. Þar gleymist iðulega sú staðreynd að íslensku fyrirtækin eru í alþjóðlegri samkeppni um að selja fisk, ekki innlendri. Ríflega 98% af íslensku sjávarfangi eru seld á alþjóðlegum mörkuðum. Þar er víglínan og þar verða stærstu íslensku sjávarútvegsfyrirtækin seint talin til risa. Ef öll íslensku sjávarútvegs- og eldisfyrirtækin yrðu sameinuð í eitt, þó slíkt sé hvorki raunhæft né ákjósanlegt, myndi það fyrirtæki ekki ná inn á topp 10 listann yfir stærstu sjávarútvegsfyrirtæki heims.

Sérstaða Íslendinga

Veiðigjald ber talsvert oft á góma. Í þeirri umræðu mætti halda að tekjur ríkissjóðs frá sjávarútvegi komi einungis frá veiðigjaldinu. Það er fjarri lagi. Veiðigjald er einungis brot af því sem fyrirtækin greiða í skatta og opinber gjöld, hvað þá af skattspori greinarinnar. Það vill oft gleymast að veiðigjald, sem er auðlindaskattur, er gjald sem sjávarútvegur greiðir umfram aðrar atvinnugreinar hér á landi, þrátt fyrir að mörg önnur fyrirtæki nýti sér auðlindir Íslands. Veiðigjald, eða annars konar auðlindagjald, verður aldrei verulegur þáttur í tekjuöflun ríkissjóðs. Og umfram allt, þá eru álögur á íslenskan sjávarútveg heima fyrir langtum hærri en tíðkast hjá samkeppnisaðilum víða um heim. Í flestum löndum nýtur sjávarútvegur opinberra styrkja, niðurgreiðslna eða undanþága frá hefðbundnum sköttum. Þetta er samkeppnin sem íslenskur sjávarútvegur þarf að fást við og vitaskuld ætti umræðan að beinast að þessari sérstöðu þegar rætt er um íslenskan sjávarútveg og gjaldtöku.

Áhersla á verðmætasköpun heima

Ísland er hálaunaland í alþjóðlegum samanburði og launatengd gjöld eru ein þau hæstu í heimi. Launakostnaður fyrirtækja sem hér starfa er því almennt hærri en í flestum öðrum ríkjum heims. Útflutningsgreinar hér á landi eiga því á brattann að sækja, enda verða þau að geta boðið samkeppnishæf laun til þess að fá fólk til starfa. Það er því tvennt í stöðunni; að hagræða með því að flytja störf úr landi eða auka tæknivæðingu.

Það er því innbyggður hvati í íslenska kerfinu að fjárfesta, enda er það lífsspursmál fyrir fyrirtækin til þess að standast hina alþjóðlegu samkeppni.

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, ólíkt til dæmis norskum, hafa valið síðari leiðina enda leggja þau ríka áherslu á verðmætasköpun heima fyrir. Til þess hafa þau ráðist í verulegar fjárfestingar í hátæknibúnaði í fiskvinnslu. Þetta hefur haft þau áhrif að ákveðnum störfum í vinnslu fækkar, en sérhæfing eykst og störfin haldast hér á landi. Samhliða eykst fjárhagslegt svigrúm greinarinnar til þess að borga hærri laun. Laun í fiskvinnslu hér á landi eru mjög há í alþjóðlegum samanburði, líklega þau hæstu í heimi. Þar að auki eru íslenskir sjómenn þeir hæst launuðu í heimi og ein hæst launaða stétt landsins. Þetta er óþekkt staða í öðrum löndum, en afar ánægjuleg staðreynd. Hið samfélagslega framlag greinarinnar lýtur ekki síst að því að skapa góð og vel launuð störf.

Undirstaðan skiptir sköpum

Það sem vinnur með íslenskum sjávarútvegi í alþjóðlegum samanburði er íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið. Það er einmitt kerfið sjálft sem hefur verið undirstaða þess að sjávarútvegur hefur staðist samkeppni á sama tíma og opinberar álögur á hann og rekstrarkostnaður heima fyrir er langt umfram það sem erlendir samkeppnisaðilar bera.

Hér á undan var ekki minnst á fjarlægð frá mörkuðum fyrir afurðir frá Íslandi, en íslensku fyrirtækin bera einnig mun hærri flutningskostnað en samkeppnisaðilar. Hryggjarstykkið og grundvallarmarkmið kerfisins er að stuðla að efnahagslegum ávinningi þjóðarbúsins með sjálfbærni að leiðarljósi. Vegna markmiða um sjálfbærni er ljóst að ekki verður gengið á fiskistofna umfram það sem þeir þola samkvæmt bestu vísindalegu ráðgjöf hverju sinni. Þar með er ekki hægt að auka verðmætin með því að veiða sífellt meira. Verðmætasköpun verður því að meginstefnu til með fjárfestingum, auknum gæðum og nýtingu, nýsköpun og markaðsstarfi. Kerfið skapar einfaldlega hvata fyrir fyrirtækin að gera meiri verðmæti úr hverju kílói sem dregið er úr sjó. Það er því innbyggður hvati í íslenska kerfinu að fjárfesta, enda er það lífsspursmál fyrir fyrirtækin til þess að standast hina alþjóðlegu samkeppni.

Án fjárhagslegra sterkra sjávarútvegsfyrirtækja, sem hafa bolmagn til þess að fjárfesta í tækniþróun og nýjungum, hefði sjávarútvegur ekki verið þessi sterki drifkraftur tækniþróunar og nýsköpunar í íslensku hagkerfi eins og raunin er.

Á undanförnum árum hefur fjárfesting verið í sögulegum hæðum í allri virðiskeðju sjávarútvegs, allt frá skipulagi veiða til lokasölu. Órofin virðiskeðja tryggir fyrirtækjunum nauðsynlegan sveigjanleika í síbreytilegu umhverfi og gegnir lykilhlutverki í aðlögunarhæfni greinarinnar. Þessi mikla fjárfesting hefur stóraukið framleiðni og skilvirkni í íslenskum sjávarútvegi. Þar standa fyrirtækin jafnframt vel að vígi í samanburði við samkeppnisaðila, enda er íslenskur sjávarútvegur einn sá tæknivæddasti í heimi. Þessi fjárfesting hefur skipt sköpum fyrir samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðamarkaði. Þetta hefur einnig verið grundvöllur þess að hér á landi hafa sprottið upp fjöldi nýsköpunar og tæknifyrirtækja sem hefur leitt af sér fjölda starfa og komið þeim í fremstu röð í heiminum í dag. Án fjárhagslegra sterkra sjávarútvegsfyrirtækja, sem hafa bolmagn til þess að fjárfesta í tækniþróun og nýjungum, hefði sjávarútvegur ekki verið þessi sterki drifkraftur tækniþróunar og nýsköpunar í íslensku hagkerfi eins og raunin er.

Með hliðsjón af samkeppnisumhverfi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja mætti ætla að almenn ánægja væri með þann árangur sem fyrirtækin hafa náð. Jafnframt mætti ætla að mönnum dytti síst í hug að umbylta fiskveiðistjórnunarkerfinu, sem skilar þjóðinni meiri tekjum af sjávarauðlindinni en nokkurt annað kerfi. Miðað við hversu mikilvægur sjávarútvegur er fyrir land og þjóð er nauðsynlegt að huga oftar að þessari heildarmynd þegar málefni sjávarútvegs eru rædd.

Greinin birtist í bók Frjálsrar verslunar 300 stærstu, en áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.