Skráð hlutafjáreign bankanna hefur aukist um tæp 150% frá ársbyrjun 2020 og svokölluð safnreikningaþjónusta þriggja af fjórum þeirra er nú komin í hóp stærstu hluthafa skráðra félaga með eignir upp á ríflega 5 milljarða í fjórum félögum.

Safnskráning er þjónusta á vegum banka sem bjóðast til að halda utan um eignir viðskiptavina á eigin reikningi, sem kallast safnreikningar. Alhliða viðskiptabankarnir þrír veita allir slíka þjónustu ásamt Kviku banka og einhverjum verðbréfafyrirtækjanna.

Fjármálagerningar á safnreikningum njóta ekki atkvæðisréttar á hluthafafundum en lúta þó að sömu skyldum er varða flöggunum. Bankinn tekur auk þess við greiðslu fyrir hönd viðskiptavina frá útgefendum verðbréfa.

Fyrsta safnþjónustan á topplista haustið 2020

Fyrsti safnreikningurinn dúkkar upp í mánaðarlegu yfirliti Kauphallarinnar yfir 20 stærstu hluthafa hvers félags í ágúst 2020, en þá fyrst má finna Kaldalón á listanum, með safnreikning Kviku banka sem 12. stærsta hluthafann með ríflega 2,7% hlut upp á 334 milljónir króna á gangvirði þess tíma.

Safnreikningafélag Íslandsbanka bættist svo við í október í fyrra með ríflega 5% hlut í Símanum sem var hátt í 5 milljarða króna virði um síðustu áramót og í lok síðasta árs er þjónusta Landsbankans orðin 10. stærsti hluthafi Skeljar með 0,4% hlut upp á 114 milljónir, sem við bættist svo tæplega 1% hlutur í Icelandair í apríl.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í lok júní. Hægt er að gerast áskrifandi hér.