Flestir eru sam­mála um mikil­vægi þess að byggja upp fjöl­breytt og kröftugt at­vinnu­líf, út­flutnings­drifið og sam­keppnis­hæft á al­þjóð­legum markaði. At­vinnu­líf sem veitir at­vinnu og skapar verð­mæti fyrir sam­fé­lagið er ekki bara undir­staða vel­ferðar á Ís­landi heldur líka í flestum löndum sem við berum okkur saman við.

Það er því fagnaðar­efni á hverju ári þegar blómi síðasta árs er birtur í árs­riti Frjálsrar verslunar og nú sem 500 veltu­mestu fyrir­tæki landsins. Listinn er á­gætis um­ræðu­grund­völlur um at­vinnu­lífið og hvernig það breytist á milli ára. Þá er það sér­stakt fagnaðar­efni að nú skuli listinn vera kominn í 500 fyrir­tæki sem býður upp á saman­burð við Fortu­ne 500 og S&P 500 svo dæmi séu tekin af sam­bæri­legum listum.

Á pari við Fortu­ne 500

Þannig er fjöl­breytni-vísir 500 stærstu á pari við Banda­ríkin og mælist nú 30,3% sem er þá sam­bæri­legt við 500 tekju­hæstu fyrir­tæki Banda­ríkjanna sam­kvæmt lista sem tíma­ritið Fortu­ne birtir ár­lega. Áður hefur verið gerð grein fyrir því hvernig fjöl­breytni-vísirinn er reiknaður en hann byggir á ein­kenni tekju­dreifingarinnar.

Velta 500 stærstu í Banda­ríkjunum er sannar­lega meiri, en tekju­dreifingin og fjöl­breytnin er sam­bæri­leg og fellur vel að „logn­ormal“ dreifingu sem ein­kennir svo marga frjálsa markaði. Mæli­kvarðinn stað­festir að at­vinnu­lífið á Ís­landi er fjöl­breytt, á pari við önnur vest­ræn ríki og endur­speglar heil­brigða at­vinnu­upp­byggingu.

Dreifingin bendir líka ein­dregið til þess að 500 stærstu endur­spegli um 80% af at­vinnu­lífi landsins og telst listinn í þeim skilningi gott þver­snið af at­vinnu­lífinu. Saman­lögð árs­verk voru til að mynda 82.090 þannig að margir ættu að tengja við listann.

Þrettán ný á lista yfir 100 stærstu

En blóminn við­heldur sér ekki sjálfur og til þess að auðga at­vinnu­lífið og við­halda heil­brigði þess á milli ára þarf bæði ný­sköpun og at­hafna­semi.

At­hafna­samar stjórnir og stjórn­endur fjár­festa í ný­sköpun til vaxtar, taka fyrir­tæki yfir eða sam­eina við eigin rekstur og skipta starf­semi upp. Allt birtist þetta okkur sem ár­leg breyting á lista þeirra 500 stærstu. Um­breytingin á milli ára birtist okkur í há­stökki eða falli sem reikna má sem eins­konar veltu­hraða.

Til saman­burðar þá endur­speglar veltu­hraði fyrir­tækja í S&P 500 vísi­tölunni um 20 ára líf­tíma á þeim lista, það koma 25 ný fyrir­tæki að jafnaði inn í vísi­töluna á mill ára. Á ís­lenska listanum birtust 54 fyrir­tæki sem náðu ekki á listann 2021. Það endur­speglar 10,8% veltu­hraða og ef um­hverfa veltu­hraðans í prósentum er skil­greint sem meðal líf­tími fyrir­tækja á lista þá jafn­gildir það að­eins um 10 ára líf­tíma.

Það skoðast í sam­hengi við 100 stærstu hvar veltu­hraðinn endur­speglar 14 ára líf­tíma sl. 10 ár. Á síðasta ári birtust 13 ný á lista yfir 100 stærstu­sem rekja má til kröftugrar endur­komu ferða­þjónustunnar.

Hástökkvarar síðasta árs

Á topplistanum yfir mesta veltuaukningu á milli ára má finna þá hástökkvara sem gera tilkall til að ryðja öðrum aftur fyrir sig í anda skapandi eyðileggingar Schumpeters. Sum koma inn með nýtt nafn og kennitölu en byggja á gömlum og góðum fyrirtækjum sem hafa sameinast eða verið tekin yfir og umbreytt.

Hástökkvari síðasta árs er Fly Play sem flýgur upp um 285 sæti og tyllir sér í 64. sæti. Önnur fyrirtæki endurspegla árangursríka nýsköpun og viðskiptavæðingu tækni og vísinda. Controlant stekkur þannig í 66. sæti upp um 50 á milli ára og Alvotech bankar á lista 100 stærstu, hækkar um 66 sæti og situr í 112. sæti.

Kerecis er á hælum þessa beggja og situr í sæti 122 en hækkar um 83 á milli ára. Öll stefna þau ofar á listann sem nýir fánaberar þess sem Marel og Össur hafa þegar áorkað.

En þó margir fljúgi upp og niður listann í stórum stökkum á milli ára er meðal sætisbreytingin um 8 sæti á milli ára fyrir 100 stærstu en 22 sæti fyrir öll hin. Það er með öðrum orðum meiri hreyfing á milli ára neðst á listanum en á toppnum.

Hægt er að lesa grein Ólafs í heild sinni í bókinni 500 stærstu sem kom út 6. desember. Hægt er að kaupa bókina hér.