Flugiðnaðurinn tók rækilega við sér á síðasta ári í sömu andrá og ferðaþjónustan, í kjölfar fullra afléttinga á takmörkunum vegna Covid-19 heimsfaraldurins. Icelandair var með mestu veltuna af öllum flugfélögum á síðasta ári.

Velta félagsins nam 171,4 milljörðum króna og jókst um tæplega 100 milljarða á milli ára. Þannig var velta Icelandair nálægt veltunni árið 2019, sem var þá upp á 185 milljarða króna.

Flugfélagið Air Atlanta var með næst mestu veltuna í fyrra, en félagið velti 31,5 milljörðum króna og jókst veltan um 11% á milli ára. Hagnaðist félagið um 2,7 milljarða króna samanborið við þriggja milljarða króna veltu árið áður.

Velta flugfélagsins Play nam tæplega 19 milljörðum króna á síðasta ári sem var fyrsta heila rekstrarár í sögu félagsins, en jómfrúarflug Play fór í loftið í júní 2021. Síðan þá hefur félagið vaxið hratt og eru áfangastaðir þess orðnir 39 talsins, þar af 34 í Evrópu og fimm í Bandaríkjunum.

Gríðarlega mikil aukning hefur verið í veltu þeirra félaga sem sérhæfa sig í útsýnisflugum á síðustu misserum, en ferðaþjónustan var í algjöru frosti bróðurpartinn af árinu 2020.

Norðurflug er leiðandi í slíku flugi á Íslandi, en félagið velti 550 milljónum króna í fyrra og hagnaðist um 15 milljónir króna. Til samanburðar hagnaðist Norðurflug um 68 milljónir árið áður.

Atlantsflug, Þyrluþjónustan og Volcano Heli eru dæmi um sambærileg félög sem hafa aukið veltu sína talsvert á síðustu árum.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 500 stærstu sem kom út 6. desember. Hægt er að kaupa bókina hér.