Íslenskri ferðaþjónustu hefur vaxið fiskur um hrygg og er orðin ein af meginstoðum útflutningstekna landsins. Verðmætasköpun atvinnugreinarinnar má bersýnilega sjá á hlut ferðaþjónustu af vergri landsframleiðslu (VLF), þar sem hlutfall greinarinnar af VLF fór frá því að vera um 3,5% árið 2009 yfir í 8,1% árið 2019.

Ör uppgangur ferðaþjónustunnar knúði meðal annars áfram hagvöxt síðastliðinn áratug, var burðarstólpi bættra lífskjara og gerði það jafnframt að verkum að efnahagslíf landsins varð fjölbreyttara en áður.

Segja má að íslensk ferðaþjónusta standi á ákveðnum tímamótum eftir skjótt vaxtarskeið og komu heimsfaraldurs. Hraður vöxtur atvinnugreinarinnar hefur að miklu leyti verið drifinn áfram af auknum fjölda ferðamanna í stað aukinna verðmæta á hvern ferðamann. Það má því ljóst vera að framundan er það verðuga verkefni að viðhalda verðmætasköpun ferðaþjónustunnar, með enn frekari áherslu á arðsemi fremur en fjölda ferðamanna og að verja samkeppnisstöðu greinarinnar, með sjálfbærni að leiðarljósi.

Að draga úr árstíðasveiflu

Ein helsta áskorun íslenskrar ferðaþjónustu hefur falist í fjölgun ferðamanna utan háannar. Það er greininni nauðsynlegt að halda áfram á þeirri jákvæðu vegferð og draga úr árstíðasveiflu í gestakomum ferðamanna í öllum landshlutum. Almennur fylgikvilli árstíðasveiflna er sá að þær hafa í för með sér lakari nýtingu framleiðsluþátta en ella þar sem fjármagn og vinnuafl í atvinnugreininni er verr nýtt yfir fámennari mánuði ársins. Tækifæri felast því í betri nýtingu framleiðsluþátta með jöfnun árstíðasveiflunnar sem stuðlar að aukinni framleiðni í atvinnugreininni sem heild.

Til þess að draga úr árstíðasveiflu þarf til að mynda aukna uppbyggingu áfangastaða og komu verðmætari ferðamanna, það eru þeir ferðamenn sem hvað best mæta þörfum áfangastaðarins Íslands. Þeir sem tilbúnir eru að heimsækja landið utan háannar, sækja í meiri mæli í menningarupplifun, dvelja lengur og ferðast víðar. Ætli íslensk ferðaþjónusta sér að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á heimsvísu mun atvinnugreinin einna helst þurfa að byggja í meiri mæli á komum þeirra sem skila auknum verðmætum á hvern ferðamann til þjóðarbúsins.

Árstíðasveifla áfangastaða hefur verið skilgreind sem einn af sjálfbærnimælikvörðum ferðaþjónustu af Heimssamtökum í ferðaþjónustu (UNWTO). Samkvæmt aðferðafræði UNWTO er árstíðasveiflan gjarnan metin sem hlutfall þeirra þriggja mánaða ársins þar sem gestakomur ferðamanna eru mestar, á öllum tegundum skráðra gististaða viðkomandi áfangastaðar, af heildar komum ársins. Á Íslandi hefur árstíðasveifla atvinnugreinarinnar þróast á hagstæðan hátt þar sem tekist hefur að jafna sveifluna úr um 73% árið 2009 í um 45% árið 2019 fyrir landið í heild, samkvæmt gögnum Hagstofu Íslands.

Þó vel hafi gengið er ekki tilefni til að leggja árar í bát, enn er verk að vinna.

Í alþjóðlegum samanburði raða Finnland og Danmörk sér ofar á lista varðandi jöfnun árstíðasveiflu árið 2019, þar sem hlutfall þriggja fjölmennustu mánaða af heildar gestakomum ársins er um 34% í Finnlandi og 43% í Danmörku, samkvæmt niðurstöðum UNWTO. Aftur á móti eru Svíþjóð og Noregur eftirbátar Íslands með um 50% og 61% hlutfall árstíðasveiflu sama ár.

Tækifæri landsbyggðarinnar

Þó vel hafi gengið er ekki tilefni til að leggja árar í bát, enn er verk að vinna. Árstíðasveiflan er ennþá töluverð á landsbyggðinni og mun meiri en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem betur hefur tekist að jafna hlut allra mánaða ársins í gestakomum ferðamanna. Hér felast tækifæri fyrir landsbyggðina.

Eigi atvinnugreininni að takast að treysta samkeppnisstöðu sína og tryggja jákvæða upplifun hjá vaxandi fjölda verðmætari ferðamanna sem sækja landið heim þarf stöðugt að leita leiða til að þjóna þeim í sátt við land og þjóð. Víða um land hefur byggst upp ný þjónusta og afþreying þar sem sérkenni staða, jafnt í náttúru og sögu, eru notuð til að skapa og auka upplifun ferðamannsins. Ferðaþjónusta hefur með þeim hætti einnig aukið fjölbreytni í atvinnusköpun, þjónustu og afþreyingu fyrir þjóðina sjálfa, einkum á landsbyggðinni þar sem sérhæfing eða nýbreytni af einhverjum toga krefst lágmarksfjölda viðskiptavina til þess að standa undir sér.

Jöfnun árstíðasveiflu ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni getur þannig komið til með að skipta sköpum fyrir mörg byggðarlög utan höfuðborgarsvæðisins með því að tryggja betri nýtingu framleiðsluþátta allt árið um kring.

Leiðandi í sjálfbærri þróun

Til lengri tíma litið er það ótvírætt að rannsóknir og nýsköpun eru grunnur að vexti og viðgangi atvinnugreina og meginundirstaða þess að þróun, framfarir og aukin verðmætasköpun eigi sér stað innan þeirra í samkeppnisdrifnum og alþjóðavæddum heimi.

Markviss uppbygging áfangastaða með nýsköpun, öflugri vöruþróun og kynningarstarfi mun þannig skapa tækifæri til að draga úr árstíðasveiflu allra landshluta í ferðaþjónustu og stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið. Í því ljósi er brýn þörf fyrir víðtækari gagnaöflun og frekari rannsóknir til að styðja við uppbyggingu atvinnugreinarinnar um land allt. Hver er sinnar gæfu smiður á ekki síður við um íslenska ferðaþjónustu. Atvinnugreinin hefur öll spil á hendi til að tryggja framtíðarverðmætasköpun sína með aukinni komu verðmætari ferðamanna, jöfnun árstíðasveiflu og forystu í sjálfbærri þróun á alþjóðavísu.

Greinin birtist í bók Frjálsrar verslunar 300 stærstu, en áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.