Hvernig viðhöldum við þeim lífskjörum sem þjóðin nýtur og tryggjum jafnframt að komandi kynslóðir fái notið sömu eða betri lífskjara?

Svarið felst í skilningi á gildi menntunar og þekkingar fyrir verðmætasköpunina. Með því að örva vísinda- og tæknirannsóknir, t.d. með skattaívilnunum, treystum við grundvöll efnahagslífsins og sköpum skilyrði áframhaldandi hagvaxtar. Mín sýn er að lykillinn að bættum lífsgæðum og fleiri tækifærum sé að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.

Við höfum lagt aukna áherslu á stuðning við nýsköpun, hugverk og þekkingargreinar á undanförnum árum. Stuðningur við rannsóknir og þróun er til að mynda sérstakt áhersluatriði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Helsti ábati samfélags af nýsköpun er annars vegar tækni- og þekkingarábati sem nýtist atvinnulífinu, stjórnkerfinu og samfélaginu í heild og hins vegar þau störf og verðmæti sem með því skapast.

Ísland mælist nú í 20. sæti af 132 þjóðum hvað varðar nýsköpunarvirkni á Global Innovation Index 2022 (GII 2022) Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) yfir mest nýskapandi ríki heims. Listinn er byggður á mati 80 mismunandi þátta sem tengjast annars vegar aðstæðum til nýsköpunar og hins vegar niðurstöðum nýsköpunar.  Ísland er í 12. sæti listans af 39 Evrópuþjóðum og almennt er Ísland yfir meðaltali í þáttum sem tengjast stofnunum, innviðum, þroska markaðar, afurðum þekkingar og tækni og afurðum sköpunar. Þá er Ísland í 1. sæti þegar horft er til almennrar notkunar upplýsingatækni, rafmagnsframleiðslu á íbúa, hlutfalls erlendrar fjárfestingar í rannsóknum og þróun af þjóðarframleiðslu, fjölda birtra vísindagreina á íbúa og fjölda framleiddra kvikmynda á íbúa.

Útflutningstekjur aukast

Útflutningstekjur byggðar á hugverkaiðnaði hafa nær tvöfaldast frá árinu 2018 og eru hugvits- og þekkingargreinar meðal öflugustu stoða efnahagslífsins. Heildarútgjöld til rannsókna og þróunarstarfs á árinu 2021 jafngiltu 2,47% af vergri landsframleiðslu (VLF) og hafa ekki áður mælst svo há. Þessi tala er til vitnis um mikla rannsókna- og nýsköpunarvirkni fyrirtækja. Á síðustu árum hafa fyrirtæki komið fram með mikilvægar nýjar lausnir sem vekja athygli á alþjóðavettvangi. Hlutfall þekkingarfyrirtækja í hagkerfinu hefur aukist og fjöldi dæma liggur fyrir um kröftuga uppbyggingu fyrirtækja sem standa framarlega á heimsvísu t.d. í lyfjaframleiðslu og líftækni. Einnig má nefna vöxt tölvuleikjaiðnaðarins í þessu sambandi.

Greiður aðgangur að sérhæfðri þekkingu og færni er ein mikilvægasta forsenda þess að áform um vöxt íslenskra fyrirtækja í hugverkaiðnaði verði að veruleika.

Nýsköpun er í eðli sínu lausnamiðað ferli þar sem fara saman þekking, hugvit og nýjar uppgötvanir við lausn á verkefnum nútímans eða framtíðarinnar. Tengsl rannsókna í háskólum og nýsköpunar í atvinnulífi eru að mörgu leyti góð og hefur sú samvinna t.d. leitt af sér mikilvægar lausnir í þágu loftslagsmála og sjálfbærni. Sértekjur háskóla markast að hluta af samstarfi háskóla og iðnaðar og ávinningur atvinnulífs af nánu samstarfi við háskóla er óumdeildur.

Mikilvægi sérhæfðrar þekkingar

Greiður aðgangur að sérhæfðri þekkingu og færni er ein mikilvægasta forsenda þess að áform um vöxt íslenskra fyrirtækja í hugverkaiðnaði verði að veruleika. Dæmum frá íslenskum fyrirtækjum um ný verkefni sem ekki náðist að framkvæma vegna skorts á sérfræðingum fer því miður fjölgandi. Nýleg könnun Samtaka iðnaðarins leiddi í ljós að ef vaxtaáætlanir í hugverkaiðnaði ná fram að ganga þarf að fjölga sérfræðingum um allt að níu þúsund næstu fimm árin. Skortur á hæfu starfsfólki er því eitt helsta áhyggjuefni forsvarsmanna í hugverkaiðnaði. Flest starfsfólk sem kemur til Íslands af EES-svæðinu sinnir láglaunastörfum en sérfræðinga sárvantar í hærra launuð störf. Á sama tíma flytjum við út sérfræðinga að loknu framhaldsnámi hérlendis og staðreyndin er sú að stór hluti þeirra skilar sér ekki aftur heim. Við þessu ætla ég að bregðast.

Atvinnulífið tekur þátt

Mikilvægt er að halda til haga, að nýsköpun byggist ekki einungis á háskóla- og vísindastarfi heldur einnig og ekki síður á nýsköpun og umbótastarfi í fyrirtækjum sem þegar eru til staðar og standa í sumum tilfellum á gömlum merg. Fyrirtæki sem í upphafi byggðu þekkingu sína og reynslu t.d. í sjávarútvegi eða jarðhita hafa þróast yfir í háþróuð tæknifyrirtæki á alþjóðavettvangi og öflugt nýsköpunarstarf á sér stað víða í iðnfyrirtækjum hér á landi.

Í nýlegri greiningu á vegum Samtaka iðnaðarins, kemur fram að rúm 40% gjaldeyristekna landsins komi frá iðnaði og segja má að hugverkaiðnaður sé sú stoð í efnahagslífinu sem vaxi hvað hraðast. 

Við eigum mikið undir að Ísland verði eftirsóknarverður staður fyrir nýsköpun og hugverk. Ég vil að hér verði framúrskarandi umhverfi í alþjóðlegum samanburði sem einkennist af góðu aðgengi að sérfræðiþekkingu, samkeppnishæfu rekstrarumhverfi, þroskuðu landslagi fyrir fjárfestingar og kröftugu stuðningskerfi stjórnvalda. 

Greinin birtist í bók Frjálsrar verslunar 300 stærstu, en áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.