Tekjublað Frjálsrar verslunar hefur skipað sér vænan sess í útgáfudagatali ársins og vekur ávallt mikinn áhuga, og í ár eiga efstu fjögur sætin af fimm á þessum lista yfir 6. til 10. mest lesnu fréttir Frjálsrar verslunar á árinu þangað rætur sínar að rekja.

6. Tveir með yfir 20 milljónir á mánuði

Næstráðendur í atvinnulífinu eru jafnan þokkalega launaðir og á tekjulista þeirra í ár tróndu tveir starfsmenn Marels með yfir 20 milljónir að meðaltali á mánuði í skattskyldar launatekjur. Alls voru 70 slíkir með yfir 3 milljónir.

7. Jón skákar bankastjórunum

Á topplista starfsmanna fjármálafyrirtækja mátti finna bankastjóra, framkvæmdastjóra rekstrarsviða og fjármálastjóra Nasdaq-Kauphallasamstæðunnar í Evrópu, en efstur var þó forstjóri og stjórnarformaður fjárfestingafyrirtækisins Stoða, Jón Sigurðsson.

8. Davíð og Björn Ingi í sérflokki

Meðal frétta- og dagskrárgerðarfólks var fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, Davíð Oddsson, launahæstur með 5,7 milljónir á mánuði. Annar fyrrum stjórnmálamaður og núverandi ritstjóri, Björn Ingi Hrafnsson stofnandi Viljans, var næstur með 4,5 milljónir.

9. Tekjuhæstur sjómanna með 6 milljónir á mánuði

Topplisti sjómannalista Tekjublaðsins var alfarið skipaður skipstjórum. Sá neðsti í 10. sætinu þénaði 4,6 milljónir í skattskyldar launatekjur á mánuði í fyrra og sá efsti, Sigurður Bjarnason skipstjóri hjá Loðnuvinnslunni, hafði 6 milljónir króna á mánuði upp úr krafsinu.

10. Stærstu einka­fjár­festarnir í Kaup­höllinni

Eina frétt þessa lista sem ekki kemur úr Tekjublaðinu er úr úttekt Frjálsrar verslunar á eigendum í Kauphöllinni sem gefin var út síðasta sumar. Í þessari frétt er farið yfir stærstu einkafjárfesta í glerhöllinni á horni laugavegs og kringlumýrarbrautar, en þar eru kunnugleg nöfn á ferð. Sín á milli áttu fjárfestingafélagið Eyrir invest og útgerðin Samherji þar eignir fyrir rétt um 200 milljarða króna.