Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR, hefur einkaleyfi bæði til að selja og afhenda áfengi í smásölu og til að selja tóbak í heildsölu. ÁTVR, sem fagnaði 100 ára afmæli árið 2022, rekur 51 Vínbúð víða um landið.
Einokunarfyrirkomulag á áfengis- og tóbaksmarkaði er rökstutt í lögum út frá því að þannig megi takmarka og stýra aðgengi og draga úr skaðlegum áhrifum áfengis- og tóbaksneyslu.
Líkt og forstjórinn Ívar J. Arndal rekur í nýjustu ársskýrslu ÁTVR þá hefur lengi verið mikil umræða um framtíð ÁTVR og fyrirkomulag áfengissölu á Íslandi. Sautján frumvörp og þrjár þingsályktunartillögur hafa verið lagðar fram á undanförnum áratugum en fáar breytingar hafa þó náð í gegn.
Frumvörpin hafa m.a. falist í að framselja einkaleyfi ÁTVR til reksturs vínbúða til einkaaðila, að leyfa sölu á áfengi með minna en 22% styrk í almennum verslunum og að leggja ÁTVR niður og leyfa sölu alls áfengis í matvöruverslunum.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármálaráðherra sagði í aðsendri grein í sérblaði Viðskiptablaðsins í febrúar sl. að brjóta ætti upp ÁTVR og selja eignir ríkisfyrirtækisins svo að tryggja mætti samkeppni á þessum markaði. „Það er fullkomin tímaskekkja að ríkisvaldið standi í rekstri á einokunarverslun,“ sagði Þórdís.
Innreið erlendra netverslana á markaðinn, sem starfa óáreittar þrátt fyrir meinta réttaróvissu, og neysluhegðun á tóbaksmarkaði, t.d. vegna tilkomu tóbaksfrírra nikótínpúða, hefur þó haft töluverð áhrif á rekstur ÁTVR að undanförnu sem hefur aukið þrýsting á núverandi fyrirkomulag. Þannig var afkoma ÁTVR árið 2022 sú lakasta á síðustu fimmtán árum.
Sé vitnað í Arnar Sigurðsson, eiganda Santewines og fremsta talsmanni fyrir afnámi ríkiseinokunar á áfengismarkaði, þá mun breytt fyrirkomulag með aðkomu einkaaðila leiða til talsvert lægra vöruverðs og aukins framboðs, líkt og netverslanir hafa boðið upp á. Þá gætu einkaaðilar jafnvel tryggt betur en ÁTVR að áfengislögum sé framfylgt með notkun rafrænna skilríkja.
Auk þess hefur hann viðrað þeirri spurningu hvort betra sé út frá lýðheilsusjónarmiðum að halda úti fimmtíu Vínbúðum á fjölförnum stöðum eða leyfa starfsemi vefverslana með áfengi.
Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um helstu tækifæri ríkisins til einkavæðingar sem finna má í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út 20. mars 2024.