Áhugaverð frétt birtist í Morgunblaðinu síðastliðin laugardag. Í henni fjallar Baldur Arnarson blaðamaður um hversu fyrirferðarmikil verktaka er í starfsemi Ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að RÚV hafi greitt tæpan milljarð til verktaka í fyrra og að verktökum sem hafa verulegar tekjur af því að vinna fyrir stofnunina hafi fjölgað mikið á undanförnum árum.

Áhugaverð frétt birtist í Morgunblaðinu síðastliðin laugardag. Í henni fjallar Baldur Arnarson blaðamaður um hversu fyrirferðarmikil verktaka er í starfsemi Ríkisútvarpsins. Þar kemur fram að RÚV hafi greitt tæpan milljarð til verktaka í fyrra og að verktökum sem hafa verulegar tekjur af því að vinna fyrir stofnunina hafi fjölgað mikið á undanförnum árum.

Tilefni umfjöllunarinnar var frétt um að Björg Magnúsdóttir, þáverandi dagskrárgerðarkona, hefði þegið greiðslur fyrir kynningarstörf í þágu Reykjavíkurborgar á árunum 2020 til 2022 samhliða störfum sínum fyrir Ríkisútvarpið. Björg var mjög áberandi í þáttargerð RÚV á þessum árum og vafalaust hefur það komið einhverjum á óvart þegar Stefán Eiríksson útvarpsstjóri útskýrði að henni hafi verið heimilt að þiggja þessar greiðslur þar sem hún var verktaki hjá stofnuninni.

Björg starfar núna sem aðstoðarmaður Einars Þorsteinssonar sem var auðvitað fréttamaður á RÚV áður en hann var kjörinn í borgarstjórn og tók við sem borgarstjóri. Svo virðist sem þræðirnir liggi víða frá ráðhúsinu við tjörnina upp í Efstaleiti.

Eins og Baldur bendir á í frétt sinni þá vekur þetta upp áleitnar spurningar ekki síst vegna samninga borgarinnar og RÚV vegna sölu byggingarlóða í Efstaleiti og vegna leigu á hluta húsnæðis Ríkisútvarpsins. Þá hafa vaknað upp spurningar um hvort borgarmeirihlutinn hafi óeðlilegt dagskrárvald yfir RÚV. Eins og fjallað hefur verið um ítarlega á þessum vettvangi þá var ákveðið á dögunum að hætta við að birta umfjöllun Maríu Sigrúnar Hilmarsdóttir fréttamanns um umdeilda samninga borgarinnar við olíufélögin á síðustu stundu eftir kvartanir úr ráðhúsinu.

***

En Baldur fjallar ekki um einn áhugaverðan anga þessa máls. Hann snýr að verktakagreiðslum til starfsmanna Ríkisútvarpsins. En þær hafa verið harðlega gagnrýndar gegnum tíðina.

Þeirri gagnrýni var gerð skil í fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins í nóvember 2020 undir fyrirsögninni Skapandi bókhald Ríkisútvarpsins. Þar var fjallað um skýrslu Fjölmiðlanefndar um starfsemi Ríkisútvarpsins sem þá var nýútkomin.

Í skýrslu Fjölmiðlanefndar kemur fram að ríkismiðillinn hafði þverbrotið þjónustusamning sinn við stjórnvöld með því að flokka verktakagreiðslur til starfsmanna sinna sem kaup á dagskrárefni frá sjálfstæðum og óskyldum framleiðendum. Í fjölmiðlarýninni segir:

Eins og fram kemur í skýrslu Fjölmiðlanefndar þá hefur RÚV alls ekki staðið við gerðan samning þrátt fyrir að bókhaldið sé látið líta öðruvísi út. Ríkisútvarpið hefur þannig flokkað greiðslur til starfsmanna sinna og annarra þeirra sem eru viðloðnir Efstaleitið sem greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda dagskrárefnis. Þannig flokkast greiðslur til blaðamanns sem rabbar vikulega um pólitík og efnahagsmál í morgunþætti í Efstaleiti undir aðkeypta dagskrárframleiðslu í bókum ríkismiðilsins. Hið sama á við innslög sprellikarla í vikulegum sjónvarpsþáttum.

Skýrsla Fjölmiðlanefndar er sprenghlægileg í þeim köflum sem lýsa samskiptum nefndarinnar við RÚV vegna þessa máls. Þar segir:

„Samkvæmt lista yfir kaup Ríkisútvarpsins af sjálfstæðum framleiðendum, sem afhentur var Fréttablaðinu samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál vorið 2020, voru verktakagreiðslur til dagskrárgerðarfólks, pródúsenta og myndatökumanna hjá Ríkisútvarpinu á meðal þess sem talið var til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum. Ekki var þar eingöngu um greiðslur til lögaðila að ræða, heldur einnig verktakagreiðslur til einstaklinga sem, samkvæmt upplýsingum sem sóttar voru 7. júlí 2020 af vefnum RUV.is, voru starfsmenn Ríkisútvarpsins. Þar á meðal voru greiðslur til einstaklinga sem störfuðu fyrir íþróttadeild, við sjónvarpsþættina Menninguna, Landann, Gettu betur, Silfrið og Vikuna. Einnig vekur athygli að Viðskiptaráð var á lista yfir sjálfstæða framleiðendur.

Fram kemur í skýrslunni að Fjölmiðlanefnd óskaði eftir skýringum hjá RÚV í sumar á því að skráðir starfsmenn ríkismiðilsins fengju einnig verktakagreiðslur sem flokkuðust undir greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda í bókhaldinu, að minnsta kosti þegar tínt var til hvernig þjónustusamningurinn var uppfylltur.

„Svar RÚV var að umræddir starfsmenn væru sko alls ekkert starfsmenn Ríkisútvarpsins þó svo að nöfn þeirra og netföng væri að finna á heimasíðu stofnunarinnar. Í framhaldinu voru svo allar upplýsingar um starfsmenn RÚV og netföng þeirra fjarlægðar af heimasíðu stofnunarinnar. Ásamt auðvitað öllum þessum sjálfstæðu verktökum, algerlega ótengdum RÚV, sem þangað höfðu slysast inn fyrir helbera tilviljun, gráglettni örlaganna og undur alnetsins.”

Í ljósi þessa og fréttaflutnings um hversu mikið vægi verktakagreiðslur hafa í rekstri Ríkisútvarpsins er fyllsta ástæða til þess að blaðamenn kanni hvort þarna hafi orðið breyting á í rekstrinum í Efstaleiti. Sérstaklega í ljósi þess að starfsmenn stofnunarinnar bera marga hatta og dúkka sífellt upp í öðrum dagskrárliðum en þeim sem þeir hafa sem sitt aðalstarf.

Þetta er brot úr fjölmiðlarýni Viðskiptablaðsins. Þessi grein birtist fyrst í heild sinni í blaðinu sem kom út 29. maí 2024.