Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um 0,5 prósentur fyrir tveimur vikum, úr 8,75% í 9,25. Í fundargerð nefndarinnar, sem birt var fyrir skemmstu, kemur fram að allir nefndarmenn hafi stutt tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um 50 punkta hækkun að Gunnari Jakobssyni undanskildum sem vildi fremur hækka stýrivexti um 25 punkta.

Í fundargerðinni segir að Gunnar, sem er varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, hafi talið að áhrif síðustu vaxtahækkana á þróunina fram á við væru mögulega vanmetin í ljósi þess að vextir hefðu verið hækkaðir skarpt undanfarið og áhrif hækkananna væru ekki að fullu komin fram.

Þá hefðu raunvextir farið hækkandi og taumhald peningastefnunnar aukist jafnt og þétt undanfarið ár. Því væru, að mati Gunnars, meiri líkur en minni til þess að ekki væri þörf á miklum vaxtahækkunum til þess að ná fram auknu taumhaldi peningastefnunnar

Þetta er önnur vaxtaákvörðunin í röð sem Gunnar greiðir atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra. Á fundi nefndarinnar í maí kaus hann gegn tillögu Ásgeirs um 125 punkta hækkun og vildi þá fremur hækka vexti um 100 punkta.

Aðrir nefndarmenn í peningastefnunefndinni, þær Rannveig Sigurðardóttir, Ásgerður Ósk Pétursdóttir og Herdís Steingrímsdóttir, greiddu atkvæði með tillögu Ásgeirs á síðustu tveimur fundum.

Mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags

Í fundargerðinni segir að nefndin hafi verið sammála um að í ljósi aðstæðna væri nauðsynlegt að herða nú taumhald peningastefnunnar enn frekar.

„Taldi nefndin að einkum væri mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Að mati hennar væru vísbendingar um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri væru að koma skýrar fram og myndi peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“