Einkavæðingin sem ráðist var í snemma á tíunda áratug síðustu aldar leiddi til eins stærsta framfaraskrefs í sögu íslensku þjóðarinnar að sögn Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi utanríkisráðherra.

„Frá því að framkvæmdanefnd um einkavæðingu tók til starfa í febrúar árið 1992 var ráðist í á fjórða tug einkavæðingarverkefna næsta rúma áratuginn á eftir. Þetta var í aðra röndina hugmyndafræðileg barátta sem endaði með sigri þeirra sem töluðu fyrir auknu hlutverki einkaframtaksins og að draga mætti úr umsvifum ríkisins með því að losa um eignarhluti í öllum þessum ríkisreknu fyrirtækjum,“ segir Bjarni í ítarlegu viðtali í Frjálsri verslun sem kom út í morgun.

Í sumum tilfellum hafi ríkið átt takmarkaða eignarhluti í fyrirtækjunum en í öðrum hafi um hreinan ríkisrekstur verið að ræða. „Þessi hugmyndafræðilega barátta hefur ekki verið endurvakin á þeim forsendum að það sé skynsamlegt að auka ríkisreksturinn, enda sakna þess fáir að ríkið eigi viðkomandi eignir.“

Hins vegar hafi fram til dagsins í dag verið tekist á um hvar ástæða sé til að draga mörkin.

„Ef við horfum aftur til þess tíma sem ríkið endurreisti innlendu bankana voru meira að segja vinstri flokkarnir einhuga um að sá ríkispeningur sem settur var í að endurreisa þá yrði endurheimtur með sölu þeirra seinna meir. Þetta var skrifað út í lögum um Bankasýsluna, sem átti að vera starfandi tímabundið utan um eignarhaldið á bönkunum og öðrum smærri fjármálafyrirtækjum sem áttu þarna í hlut.“

Fólki treystandi til að láta til sín taka

Hvar telur þú að íslenskt samfélag væri statt í dag ef ekki hefði verið ráðist í einkavæðinguna?

„Ég held að flestir séu sammála um að þetta hafi verið mjög mikilvægt framfaraskref. Eins og ég nefndi áðan var þetta hugmyndafræðileg barátta sem snerist um frelsi til athafna og að ekki þyrfti að sækja allt til ríkisins. Að sama skapi snerist baráttan um að fólki væri treystandi til þess að láta til sín taka.

Það hafði verið viðvarandi taprekstur hjá mörgum þessara ríkisfyrirtækja um langt skeið. Gott dæmi um það eru Ríkisskip. Í sumum tilfellum var verið að selja mjög verðmætar eignir og því snerist flest um að fá gott verð og standa þannig að sölunni að verið væri að hámarka hagsmuni ríkisins. Í svona viðamiklu verkefni þar sem margar eignir eru undir er ekkert skrítið að sum mál verði umdeild. Við slíkar aðstæður skiptir máli að hafa sterka stjórnendur sem klára verkið og láta ekki deigan síga þótt á móti blási.

Ég tel að ríkissjóður væri mun verr staddur en í dag ef ekki hefði verið farið í einkavæðinguna. Samkeppnin á Íslandi, sem er áskorun að halda úti í fámennu samfélagi, væri mun minni. Það væri erfiðara fyrir einkarekstur að þrífast á Íslandi ef ríkisumsvif væru á mörgum sviðum atvinnustarfseminnar. Þar af leiðandi erum við á mun betri stað í dag en við værum ef ekki hefði verið lagt af stað í þetta verkefni. Nægir í því samhengi að horfa til jákvæðrar þróunar landsframleiðslu á tímabilinu frá upphafi einkavæðingarinnar til dagsins í dag.“

Nánar er rætt við Bjarna í tímariti Frjálsrar verslunar um einkavæðinguna sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild sinni hér.