Raforkuframleiðsla á Íslandi er að meginþorra á hendi hins opinbera. Landsvirkjun, sem er alfarið í eigu ríkisins, gnæfir þar yfir markaðnum en félagið vinnur yfir 70% allrar raforku á landinu. Rarik, móðurfélag Orkusölunnar, er einnig í eigu ríkisins og Orka náttúrunnar er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur.

Helstu rök fyrir eignarhaldi hins opinbera er að tryggja orkuöryggi þar sem raforka myndar grunn í nútímahagkerfi, hvort sem litið er á hana sem nauðsynjavöru heimila eða grunnframleiðsluþátt. Vegna þjóðhagslegs mikilvægis raforkuframleiðslu vill hið opinbera oftar en ekki hafa stjórn á umræddum fyrirtækjum. Einnig er bent til þess að vatnsafl og jarðvarmi eru oftast skilgreind sem sameiginleg auðlind.

Af opinberri umræðu, viðhorfi almennings og stefnu stjórnvalda má draga þá ályktun að Landsvirkjun verði ekki einkavædd í heild sinni. Hins vegar gæti sala á minnihluta í fyrirtækinu til fjárfesta á borð við lífeyrissjóði, sem eru í eigu landsmanna, talist álitleg.

Aukið aðhald kæmi þá frá hluthafahópnum auk þess sem ríkið gæti losað um umtalsverða fjármuni án þess að missa yfirráð yfir fyrirtækinu. Með sölu á minnihluta mætti jafnframt þannig skrá Landsvirkjun á hlutabréfamarkað, líkt og í tilviki norska orkufyrirtækisins Equinor, sem myndi eflaust leiða af sér aukinn áhuga á starfseminni og á orkumálum heilt yfir.

Til marks um þá fjármuni ríkisins sem bundnir eru í Landsvirkjun þá nam eigið fé félagsins 2.364 milljónum dala í árslok 2023 eða sem nam tæplega 322 milljörðum króna.

Önnur nátengd umræða er markaðsráðandi staða Landsvirkjunar. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins um íslenska raforku frá árinu 2019 segir að einkenni íslensks raforkumarkaðar sé að Landsvirkjun, sökum stærðar sinnar, selji mörgum orkusölum raforku til endursölu og þannig markist verð til heimila og annarra notenda af verði Landsvirkjunar þó svo að viðskiptin séu við annan orkusala.

Fyrir nokkrum árum myndaðist umræða um mögulega uppstokkun á Landsvirkjun og sala á eignum til einkaaðila til að stuðla að bættri samkeppni á smásölumarkaði með raforku.

Í skýrslunni Orkuauðlindir Íslendinga og hagsæld til framtíðar frá árinu 2019, sem Reykjavik Economics og Intellecon unnu fyrir Landsvirkjun, segir að hættan við þá leið er að samningsstaða fyrirtækisins gagnvart stórnotendum, sem vega yfir 85% af sölu Landsvirkjunar, yrði verri. Auk þess yrði fjármagnskostnaður líklega hærri og stærðarhagkvæmni myndi skerðast.

Framangreind umfjöllun um sölu á minnihluta gæti einnig átt við um Landsnet, sem sinnir raforkuflutningi, en eigið fé þess nam 68,5 milljörðum króna í árslok 2022.

Sú niðurstaða verður þó að teljast ólíkleg, m.a. vegna orkustefnu stjórnvalda til ársins 2050 þar sem hlutlaust eignarhald Landsnets er sagt grundvöllur gegnsæis og jafnræðis á raforkumarkaði. Ríkið keypti 93,2% hlut Landsvirkjunar, Rarik og Orkubús Vestfjarða í Landsneti í árslok 2022 og stefnt er að því að ríkið kaupi eftirstandandi 6,8% hlut af Orkuveitunni innan tíðar.

Fréttin er hluti af ítarlegri umfjöllun um helstu tækifæri ríkisins til einkavæðingar sem finna má í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út 20. mars 2024.