Óðinn fjallar í dag, aðra vikuna í röð, um gjafir Dags B. Eggertssonar til olíufélaganna. Í dag er meðal annars rifjuð upp einkennileg tilkynning til kauphallarinnar um fasteigna- og lóðasölu. Einnig er vitnað í orð bæjarstjóra sveitarfélaga sem margar þessar lóðir eru staðsettar.

Það er rétt að geta þess að Hildur Björnsdóttir birti í gær mjög skorinorða yfirlýsingu um gjafagerninga í Reykjavík. Hér má lesa þá yfirlýsingu.

Pistilinn frá því í gær geta áskrifendur lesið hér en þar sem Óðinn er í góðu skapi í dag, aldrei þessu vant því sumarið er að koma og líkt og alþýðutónskáldið Bubbi á Benz söng um, þá er það tíminn.

Því er hér pistillinn frá því í síðustu viku í heild sinni.

Óðinn fjallar í dag, aðra vikuna í röð, um gjafir Dags B. Eggertssonar til olíufélaganna. Í dag er meðal annars rifjuð upp einkennileg tilkynning til kauphallarinnar um fasteigna- og lóðasölu. Einnig er vitnað í orð bæjarstjóra sveitarfélaga sem margar þessar lóðir eru staðsettar.

Það er rétt að geta þess að Hildur Björnsdóttir birti í gær mjög skorinorða yfirlýsingu um gjafagerninga í Reykjavík. Hér má lesa þá yfirlýsingu.

Pistilinn frá því í gær geta áskrifendur lesið hér en þar sem Óðinn er í góðu skapi í dag, aldrei þessu vant því sumarið er að koma og líkt og alþýðutónskáldið Bubbi á Benz söng um, þá er það tíminn.

Því er hér pistillinn frá því í síðustu viku í heild sinni.

Gjafir Dags, Jón Ásgeir og hlutleysi Ríkisútvarpsins

Í Kastljósi Ríkisútvarpsins á mánudagskvöldið var fjallað um samninga Reykjavíkurborgar og olíufélaganna. Umfjöllunin var stórfín yfirferð yfir málið. En þar kom fátt, ef nokkuð, fram sem ekki hefur áður komið fram í fjölmiðlum. Þá helst í Morgunblaðinu fyrir um meira en tveimur árum.

Utan eins. Viðbrögð Dags B. Eggertssonar í þættinum benda til þess að hann hafi ekki – hvorki fyrir gerð samninganna, meðan samningagerðin stóð yfir, eða eftir undirritun samninganna – kynnt sér efni þeirra. Þetta var því ágætt sjónvarp.

***

Um hvað snýst málið

Reykjavíkurborg á flestar lóðir í Reykjavík. Um þessar lóðir gilda lóðaleigusamningar sem eru að jafnaði til 50 ára. Það eru engin rök til annars en að framlengja lóðaleigusamninga nema landnotkunin breytist. Til dæmis ef breyta á atvinnusvæði í íbúðasvæði. Það kunna að vera góð og gild rök fyrir því að sveitarfélag eigi samstarf við lóðarhafa um það, enda kann það að hraða uppbyggingu þar sem lóðaleigusamningar er með mismunandi gildistíma.

***

Bensínstöðvar sérstakur flokkur

Bensínstöðvar eru mjög sérstakur flokkur atvinnuhúsnæðis. Nýtingarhlutfall þeirra lágt, starfsemin sérhæfð og miðar við nauðsynlega þjónustu, en húsin á lóðunum yfirleitt lítils virði. Fasteignamatið er þar af leiðandi lágt og lóðaleigan sömuleiðis. Ef mikill byggingarréttur undir gerbreytta notkun er heimilaður á lóðinni geta því orðið til mikil verðmæti með einu pennastriki.

***

Nýtt viðfangsefni

Þökk sé lóðaskortsstefnu, sem hófst í tíð R-listans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem borgarstjóra upp úr 1994, þá hefur byggingarréttur orðið verðmætari og verðmætari. Til viðbótar er borgin alltaf að færast nær því að vera fullbyggð, sem hækkar lóðaverð einnig, auk þess sem húsnæðisverðið ræður miklu.

Það er því rökrétt og eðlilegt að þessi álitamál hafi ekki komið upp eins oft í fortíð og þau munu koma upp í framtíð.

En hér er pólitíska spurningin sú hvort það er eðlilegt að eigendur bensínstöðva eignist einir allan þann ágóða sem af umbreytingunni verður. Fyrirhafnarlaust.

Þeir greiddu ekki sannvirði fyrir lóðirnar við úthlutun, m.a. vegna þess að horft var til þjónustuframlags þeirra við íbúa, sem þeir eru nú að falla frá, og þeir hafa greitt ákaflega lága lóðaleigu til borgarinnar. En það sem merkilegast er að þeir vilja sjálfir leggja þessar bensínstöðvar af, því viðskiptin hafa og munu dragast saman.

Það sem vekur hvað mesta undrun er að ekki voru lögð innviðagjöld á olíufélögin. Það er hins vegar gert á öllum öðrum þróunarsvæðum, líkt og Ártúnshöfða, Orkureit og Heklureit.

***

Þögn Sjálfstæðisflokks

Hildur Björnsdóttir tók við sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir um tveimur árum. Margir þeir sem hafa verið lengur en einn vetur í pólitík undruðust það mjög að hún skildi ekki vaða í þetta mál þegar Morgunblaðið hóf að fjalla um það. Þetta mál er nefnilega annað hvort algjört fúsk hjá Degi B. Eggertssyni og félögum, eða hrein og klár spilling. Óðinn hallast að hinu fyrra.

Viðbrögð Hildar Björnsdóttur á mbl.is í gærmorgun, um hversu hissa hún er á málinu, eru óskaplega ósannfærandi. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins í borginni hljóta að gera þá kröfu til hennar að hún skýri þennan sofandahátt í málinu.

Sú staðreynd að eiginmaður hennar hefur um nokkurt skeið verið unnið með Jóni Ásgeiri Jóhannessyni sem á stóran hlut í Skel, einu olíufélaganna, hlýtur að gera til hennar enn ríkari kröfur um afstöðu hennar og aðgerðir.

Óðinn heyrir af því að sami Jón Ásgeir hafi undanfarna mánuði verið duglegur að senda skilaboð á sveitarstjórnarfólk, og jafnvel sækja það heim, til að tryggja þessi verðmæti „sín“, eins og hann orðar það.

***

Þungur dómur ritstjórans

Í lögum um Ríkisútvarpið er þess krafist af stofnunni að hún sé hlutlaus. Í aðdraganda birtingar Kastljósþáttarins á mánudag var gerð tilraun til að stöðva birtingu efnisins. Fréttamaðurinn var einn fjölmargra starfsmanna Kveiks.

Ingólfur Bjarni Sigfússon, ritstjóri Kveiks, vildi ekki birta þáttinn og sagði, að sögn, að umræddur fréttamaðurinn væri lélegur rannsóknarblaðamaður en snotur fréttalesari.

Þetta var þungur dómur, en kom frá manni sem fyrir rétt rúmum tveimur árum ákvað að fara til Úkraínu í sama mund og Rússar réðust inn í landið.

Hann var líklega eini maðurinn í veröldinni allri með internettengingu, sem hafði ekki heyrt af því eitt hundrað þúsund rússneskir hermenn væru við úkraínsku landamærin og vestrænar leyniþjónustur væru fullvissar að innrás hæfist fyrr en seinna.

Þá hófst einhver allra hlægilegasti flótti sem sést hefur í sjónvarpi. Það var líka ágætt sjónvarp, að vísu alveg óviljandi.

Hafi ritstjórinn rétt fyrir sér með fréttamanninn, þá eru að minnsta kosti tveir fréttamanna Kveiks þannig af guði gerðir að rannsóknarblaðamennska hentar þeim ekki, en spurning hvort hann sé dómbær á það.

***

Eiga „eigendur“ Ríkisútvarpsins ekki rétt á skýringum?

Ríkisútvarpið hefur auglýst um áratugaskeið að þjóðin eigi Ríkisútvarpið. Það er auðvitað misskilningur, þjóðin getur ekkert átt en ríkið á Ríkisútvarpið að forminu til. Raunverulegur eigandi er Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins.

Deilan í starfsmannafélaginu fór í þetta sinn aðeins úr böndunum. Vinstri armur stofnunarinnar, sem eru nokkurn veginn nákvæmlega allir starfsmenn hennar, kom í veg fyrir birtingu þáttarins um tíma. En svo neyddust þeir til að sýna þáttinn þegar málið komst upp á yfirborðið og varð vandræðalegt.

Útvarpsstjórinn, sem var starfsmaður Dags B. Eggertssonar þar til að hann var handvalinn af ráðherra í Efstaleiti, hefur ekki einu sinni reynt að útskýra þetta. Á almenningur ekki rétt, nei kröfu, á skýringum?

***

Hlutleysi fréttamannsins

Sumir halda ef til vill að stjórnendur Ríkisútvarpsins gæti sérstaklega að hlutleysi fréttamanna í einstaka málum. Að ríkisfréttastofan sé jafnvel með eitthvert kerfi til að tryggja hlutleysið. Og ef minnsti vafi leiki á hlutleysi einstakra fréttamanna sé greint frá hagsmunaárekstrum eða öðrum fréttamanni fengið verkefnið.

Nei. Slíkt fengi auðvitað ekki samþykki hjá stjórn starfsmannafélagsins. Markmiðið er nefnilega að fara með Ríkisútvarpið eins og stjórninni sýnist.

Fréttamaðurinn, sem vann Kastljósþáttinn, minntist t.d. ekki á það í umfjöllun sinni um bensínstöðina á Ægisíðu að af þeim níu einbýlishúsum sem eiga lóðamörk að bensínstöðvarlóðinni þá eru tvö húsanna í eigu aðila nákomnum honum.

Það vakti líka eftirtekt að Ögmundur Jónasson var einn þeirra álitsgjafa, sem lýsti yfir sérstökum stuðningi við fréttamanninn. En lét þess ógetið að dóttir hans á eitt þessara níu húsa og á því persónulegra hagmuna að gæta.

Auðvitað er það svo í litlu samfélagi eins og Íslandi að allir eiga hagsmuni og skyldleika í velflestum málum. Þeir mega vitanlega eiga þá og verja þá hagsmuni og það má fjalla um þá hagsmuni. En það er lágmarkskrafa til ríkisstofnunar, þar sem löggjafinn hefur sett þá skyldu með lögum að starfsmenn að gæti hlutleysis í umfjöllun sinni, að þeir fari eftir þeim lögum.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

***

Hlutleysi Ríkisútvarpsins

En hlutleysi eru orðin tóm hjá Ríkisútvarpinu. Það hefur sést í hverju málinu á fætur öðru. Mikilvægasta málið var auðvitað Icesave, en aldrei hefur sést önnur eins misnotkun starfsmannafélagsins á stofnunni og í því máli. Og aldrei rætt meir, aldrei gert upp, eins og allt hafi verið eðlilegt.

Þar lagðist Ríkisútvarpið með hagsmunum Breta og Hollendinga gegn hagsmunum íslensk almennings. Að einhverju leyti vegna afstöðu til Evrópusambandsaðildar, en sjálfsagt frekar vegna þess að Ríkisútvarpið stóð allt til enda með ríkisstjórn Steingríms og Jóhönnu, einu hreinu vinstri stjórn lýðveldisins.

Hið sama virðist hafa verið upp á teningnum nú og útvarpseigendafélagið í Efstaleiti var enn og aftur til í hvað sem er fyrir málstaðinn og vini sína í ráðhúsinu. Og hefði sjálfsagt tekist ef almenningi hefði ekki blöskrað karlremban og kvenfyrirlitningin í yfirstjórninni.

En hver er grundvöllur ríkisútvarps, sem öllum íbúum landsins er skylt að borga til, ef það getur ekki verið hlutlaust, getur ekki annað en verið hlutdrægt með vinum sínum og samherjum?

Óðinn er fastur dálkur í Viðskiptablaðinu í hverri viku.